Frakkar eru heimsmeistarar í knattspyrnu karla í annað skipti í sögunni eftir sigur á Króatíu, 4:2, í frábærum markaleik á Luzniki-vellinum í Moskvu í Rússlandi. Frakkarnir sýndu mátt sinn og megin í leiknum, nýttu sína styrkleika og sýndu heimsbyggðinni að liðið er það sterkasta í heimi og virtist á tímabili ætla að valta yfir hæfileikaríkt lið Króata er það komst í 4:1. Mistök Hugo Lloris í marki Frakka stöðvuðu hins vegar þá bylgju og gáfu Króatíu von.
Króatar hófu leikinn af krafti, voru betri fyrstu fimmtán mínúturnar og komu sér í álitlegar sóknarstöður. Þeir héldu boltanum meira en án þess að skapa sér hættuleg færi. Mögulega var það þó þessi leikmynd sem Frakkarnir vildu sjá, liggja aftarlega og lokka Króatana framar á völlinn til þess að geta nýtt sér hraðann sem býr í liðinu fram á við.
Frakkar komust yfir á 18. mínútu er aukaspyrna frá Antoine Griezmann inn í teig fór af höfði Króatans Mario Mandzukic og inn, 1:0. Króatar jöfnuðu metin á 28. mínútu með marki frá Ivan Perisic sem fékk boltann til sín inni í teig eftir aukaspyrnu. Perisic lék á N’Golo Kanté í einni snertingu og setti boltann með vinstri í fjærhornið, 1:1. Perisic var á ný í eldlínunni 10 mínútum síðar en fyrir öllu leiðinlegri sakir, en hann fékk boltann í höndina eftir hornspyrnu Frakka. Vítaspyrna var dæmd og spyrnusérfræðingur Frakka, Griezmann, skoraði, 2:1. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Króatarnir hófu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri. Voru vel stemdir og sóttu mjög á frönsku vörnina sem hélt hins vegar vel á meðan skæðir sóknarmenn Frakkanna, sér í lagi Kylian Mbappé, voru ávallt stórhættulegir er Frakkar fóru fram. Það var einmitt þannig sem þriðja mark Frakka varð til. Frakkar sneru vörn í sókn með einni sendingu frá Paul Pogba sem þrumaði boltanum í svæði fyrir Mbappé sem vinnur alla á sprettinum, sendi boltann inn í teig, sem á endanum rataði á Pogba sem afgreidi boltann með vinstri í annarri tilraun eftir að fyrra skot hans fór í varnarmann, 3:1.
Vinstri bakvörðurinn Lucas Hernández skóp fjórða mark Frakka á 65. mínútu, óð upp vinstri kantinn og sendi fyrir á undabarnið Mbappé sem lagði boltann laglega í netið, 4:1. Allt virtist stefna í franska markaveislu.
Hugo Lloris gaf hins vegar króatísku þjóðinni von og mark á silfurfati er hann reyndi að leika á Mario Mandzukic nánast á marklínunni. Króatíski framherjinn náði til boltans sem fór beina leið inn og staðan orðin 4:2 er 21 mínúta var eftir af venjulegum leiktíma.
Vonin sem Lloris gaf Króötum var hins vegar veik og varð aldrei raunveruleg. Frakkar fóru í sínar stöður, vörðust vel, Króatarnir fengu ekki færi, og Frakkland sigldi sigrinum í höfn.