Tveir menn eru í algjörum sérflokki þegar kemur að markaskorun á HM karla í knattspyrnu. Annars vegar Frakkinn Just Fontaine sem skoraði 13 mörk í aðeins sex leikjum 1958. Sumsé 2,17 mörk að meðaltali í leik. Gjörsamlega sturluð tölfræði.
Ungverjinn Sándor Kocsis gerði þó enn betur á HM 1954, var með 11 mörk í fimm leikjum, það gerir 2,20 mörk að meðaltali. Svona tölur munum við aldrei sjá aftur. Því get ég lofað ykkur. Það er helst að Erling Braut Haaland hafi aðrar hugmyndir.
Markakóngur HM frá upphafi er Þjóðverjinn Miroslav Klose, sem skoraði 16 mörk í 24 leikjum á fjórum mótum frá 2002-14. Brasilíumaðurinn Ronaldo gerði 15 mörk í 19 leikjum á þremur mótum, 1998-2006. Þjóðverjinn Gerd Müller átti markametið lengi, gerði 14 mörk í 13 leikjum á HM 1970 og 1974.
Brasilíumaðurinn Pelé er í fimmta sæti á listanum yfir markahæstu menn í sögu HM; með 12 mörk í 14 leikjum yfir fjögur mót.
Rúmlega hálfri öld eftir að hann steig síðast inn á stóra sviðið er Pelé ennþá fyrsta nafnið sem kemur upp í hugann þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu ber á góma. Hann er og verður ugglaust um ókomna tíð kóngurinn á HM enda eini leikmaðurinn í sögunni sem unnið hefur mótið í þrígang, með Brasilíu 1958, 1962 og 1970. Kappinn meiddist að vísu strax í öðrum leik í Síle 1962 og missti af úrslitaleiknum sem þýddi að hann fékk ekki gullið sitt. Varamenn og laskaðir menn voru ekki hátt skrifuð stærð á þeim árum. Árið 2007 tók Alþjóðaknattspyrnusambandið hins vegar á sig rögg og afhenti Pelé gullið. Eins og öðrum utanliðsmönnum frá mótunum frá 1930-’74.
Pelé var aðeins 17 ára þegar hann heillaði heimsbyggðina fyrst með töfrum sínum á HM í Svíþjóð 1958 og enn þann dag í dag er hann yngsti maðurinn til að koma við sögu í úrslitaleik mótsins. Norman Whiteside sló hins vegar met Pelés á HM þegar hann lék fyrir hönd Norður-Írlands á HM á Spáni 1982, 17 ára og 41 dags gamall.
Ítarlega er fjallað um HM í knattspyrnu, í fortíð og nútíð, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.