Jónas Grani Garðarsson, sjúkraþjálfari og markakóngur efstu deildar Íslands í fótbolta árið 2007, sem búsettur er í Katar, birti pistil á Facebook-síðu sinni í morgun um heimsmeistaramótið sem haldið er í Katar og hefst í dag.
Þar langaði hann til að sýna annan vinkil en hefur tröllriðið öllu í fréttum og umfjöllun um HM í Katar. Samkvæmt Jónasi er sú umræða oft á tíðum frekar einhæf og virðist án nokkurrar gagnrýni á það sem menn sjá og heyra. Að það sé ekkert endilega verið að kanna hlutina mikið.
Jónas talaði um að ef rýnt sé í málin sjáist að Katararnir hafi bætt sitt ráð í ýmsum málum og séuað vinna í að laga hlutina.
Hann segir þó að enn sé margt sem þurfi að laga og bæta, margt sem er galið og tengist yfirleitt trúnni. „Það breytir því þó ekki að mér finnst að þeir eigi að fá hrós fyrir það sem þeir hafa nú þegar breytt og eru að vinna í að breyta og laga,“ sagði Jónas meðal annars í pistlinum.
Pistilinn í heild sinni má lesa hér að neðan:
Það er HM dagur í dag.
Heimsmeistaramótið í Qatar byrjar í kvöld -að staðartíma. Ég ákvað að skrifa smá pistil varðandi HM í Qatar – í framhaldi af frétt á Stöð 2 í gærkvöldi og fleiri fréttum af mótinu og uppbyggingu þess.
Ég hef búið í Qatar frá því í mars 2016 og líkar amk ekki verr en það að ennþá er ég hér. Mig langar að sýna annan vinkil en hefur tröllriðið öllu í fréttum og umfjöllun um HM í Qatar. Sú umfjöllun er oft og tíðum frekar einhæf og að því er virðist án nokkurrar gagnrýni á það sem menn sjá og heyra. Ekkert endilega verið að kanna hlutina of mikið. Þar má vísa td í Kastljós á rúv fyrir nokkrum dögum og nánast allar fréttir af HM sem ekki fjalla beint um fótbolta. Menn lýsa því yfir á samfélagsmiðlum eða fréttum að þeir ætli ekki að horfa á mótið (eða amk fylgjast minna með – þó það verði auðvitað kveikt á sjónvarpinu!) og fyrirtæki hætta við að auglýsa í tengslum við mótið.
Taka skal fram að ég er langt í frá alvitur um þessi mál og ég efast ekki eina sekúndu um að alveg gríðarlega margt hefði mátt betur fara en ef málin eru skoðuð þokkalega þá sést að Qatararnir hafa bætt sitt ráð og eru að vinna í að laga hlutina. Einhvern tíma hefði það þótt góðra gjalda vert. En, þetta er múslimaríki við Persaflóa sem á fullt af peningum og miklu meira en það. Þeir hljóta bara að vera vondir og við skulum ekki reyna að breyta þeirri mynd.
Qatar er reyndar friðsamasta ríkið við Persaflóa og hafa alla tíð veri í hlutverki þess sem vill miðla málum og sjaldan tekið mjög einarða afstöðu gegn einu eða neinu. Yfirleitt til í að ræða málin. Það verður svo sannarlega ekki sagt um alla hina. Jafnvel þó víðar væri leitað.
Varðandi verkamenn í Qatar og mannréttindabrot sem er nú algengasta umræðuefnið þá hefur alþjóða vinnumálastofnunin (ILO), sem við Íslendingar erum hluti af, sagt að eins og staðan er núna þá verði Qatar fyrirmynd um það hvernig eigi að standa að hlutum (e. Benchmark) við uppbyggingu fyrir stórmót. Það hafa nefnilega átt sér stórkostlegar breytingar í þessum málum síðan 2018 en þá opnaði ILO skrifstofu hér í Qatar. Fyrsta kvörtun varðandi aðbúnað verkamanna barst til þeirra árið 2013 þannig að þetta tók talsverðan tíma.
Dauðsföll verkamanna er sögð hafa verið uþb 6500 og ekkert farið nánar út í það, er þá verið að vísa í þessa frægu og sérlega vönduðu grein sem Guardian birti í febrúar á síðasta ári. Sjaldnast er minnst á það að tölurnar eiga við 10 ára tímabil og enn síður að þær séu um alla sem voru frá þeim löndum sem hringt var í. Það var nefnilega bara hringt til nokkurra landa í SA Asíu og fengnar dánartölur ríkisborgara þeirra í Qatar. Þetta gera ca 650 dauðsföll á ári. Skv nýlegum tölum eru rúmlega 2 milljónir verkamanna í Qatar. Út frá því væri hægt að segja að dauðsföll væru uþb 0,03% verkamanna – en það væri líklega álíka ónákvæmt og hin margfræga 6500. En sú fræga tala á við um alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla – ásamt öllum hinum. Öllum. Ekki bara þeim sem vinna við vellina fyrir HM.
ILO gerði rannsókn á slysum meðal verkamanna í Qatar og skv þeim tölum voru 50 dauðsföll rakin til vinnuslysa, þar af 25% þeirra í umferðinni. Eitt slys, í júlí, kostaði ellefu manns lífið.
Aðstæður verkamanna í Qatar eru þær bestu á Persaflóasvæðinu þegar kemur að hitanum og vinnu við erfiðar aðstæður út frá veðri. Það var gerð umfangsmikil rannsókn á því hvað væri best fyrir vinnu við slíkar aðstæður og hvenær mætti ekki vinna, svo dæmi sé tekið. Bannað er að vinna frá 10 – 15:30 frá 1. júní til 15. september og þegar hiti fer yfir 32 gráður – út frá því finnst Íslendingnum að það sé aldrei unnið á þessu tímabili!
Samkynhneigð er bönnuð með lögum í Qatar, eins og í 7-8 öðrum þáttökuþjóðum á HM. Ef jafnt skildi yfir alla ganga þá ættum við líklega að henda þessum löndum út og banna að keppnin fari fram í þessum löndum. Þetta er erfitt mál og snúið, þó að okkur finnist þetta einfalt og lítið mál. Qatar er, eins og flestir vita, múslimaríki og skv þeirri trú er samkynhneigð bönnuð og erfiðustu samræðurnar eru einmitt um það mál. Ég held að við þurfum að gefa þessum þjóðum smá tíma, við getum ekki ætlast til að áratuga baráttu í hinum vestræna heimi að afleiðingum/árangri hennar verði bara komið á með einum smelli hjá þessum þjóðum. Það virkar bara ekki þannig. Saga Qatar, sem ríkis nær aðeins aftur til 1971 og hér var bókstaflega ekkert árið 1980. Internetið er til þess að gera nýkomið og allar upplýsingarnar sem því fylgja. En við getum alveg rætt þetta og minnt þá á þetta.
En trúið þið mér, hér er allt morandi í hommum, bæði heimamönnum og þjónustu-/verslunargaurum frá SA Asíu. Hellingur. Við íslenskir karlmenn leiðumst ekki, punktur. Nema syni okkar. Hér er það mjög algeng sjóna að sjá karlmenn leiðast og það tók tíma að venjast því – þó ekki jafn langan og þetta með berfættu karlmennina, hvort sem þeir eru í þób (thobe) eða síðbúxum! Agalegt.
Ég er nokkuð viss með það að samkynhneigðir sem hingað koma geti bara haft það fínt og verið í friði, svo lengi sem þeir eru ekki að ræða það á torgum og reyna að breyta lögunum á þeirri stundu.
Sá norski. Hann fann skít – enda var hann bara að leita að skít. Alveg sama um heildarmyndina. En út frá því litla sem hann fann þá getur hann fullyrt um alla hina, rúmlega tvær milljónir manna. Ég held að það sé alveg sama hvert þú ferð, ef það eru tvær milljónir manna – verkamanna á lágum launum – þá finnur þú skít. Helling af skít.
Þetta var slæmt og hvert skítamál eru einu of mikið. Dettur ekki í hug að verja það. Þetta var slæmt, fyrir alla.
Eitt af vandamálunum við verkamenn, og reyndar alla sem koma til að vinna á Persaflóasvæðinu, er Kafalakerfið. En skv því gátu vinnuveitendur haldið vegabréfum starfsmanna hjá sér og verkamenn gátu ekki breytt um vinnu án leyfis frá vinnuveitenda. Auk þess þurftu þeir leyfi (exit permit) til að fara úr landi. Það átti td við um okkur starfsmenn Aspetar þannig að við þurftum alltaf að sækja um fararleyfi áður en við ferðuðumst frá Qatar. Þetta hefur allt verið afnumið og breytt. Og við þurfum ekki lengur exit permit áður en við förum í flug – heim, ég meina út í heim.
Eftir komu ILO til Qatar hefur því einnig verið komið á að greiða skal lágmarkslaun og á réttum tíma. Grunar mig að þær fréttir sem fjalla um hlunnfarna menn séu frá fyrri tíð en um það ætla ég ekki að fullyrða.
Qatar hefur einnig ráðstafað 320 milljónum bandaríkjadala til vangoldinna launa. Þeir sem eru enn í landinu geta því kroppað úr þeim sjóði en þeir sem eru farnir fá líklega ekki neitt.
Bjórinn. Það er mikið talað um bjórinn, skiljanlega. Almennt getum við sagt að áfengi sé dýrt í Qatar – þetta er jú bönnuð munaðarvara – sem hægt er að kaupa í Ríkinu (QDC, Qatar distribution company) eða á völdum hótelum. Við erum að tala um íslenskt verð. Auk þess verður hægt að fá bjór á rétt ríflega íslensku verði á fanzones.
Sú ákvörðun að hætta við að selja bjór á leikvöngunum tveimur dögum er mjög skrýtin. En sú ákvörðun var líklega tekin fyrir mjög löngu síðan en tilkynnt í dag. Budweiser væri líklega á útopnu í dag og að hóta lögsókn ef þeir hefðu ekki vitað þetta fyrir löngu síðan. Eitt lítið svekkelsis tíst bendir ekki til að þeir séu algjörlega brjálaðir. Og við getum líka verið viss um að þeir fá meira fyrir að selja ekkert en ef þeir hefðu mátt selja bjórinn á völlunum.
Svo man ég ekki betur en að það hafi einungis verið seldur pilsner á Stade du France og í Marseille á þeim leikjum sem ég fór á í Frakklandi. Þá sagði enginn neitt.
Englendingar eru ekki sérlega sáttir við þessa ákvörðun og fara mikinn sem er í besta falli skondið í ljósi hegðunar þeirra á heimavelli í síðustu EM keppni. Ekki beint stuðningur við sölu áfengis á fótboltaleikjum.
En betur má ef duga skal. Ástandið var hræðilegt í byrjun en það hefur lagast mikið, mjög mikið eins og sjá má á vef ILO (ilo.org). Fyrir áhugasama og helst þá fréttamenn sem um Qatar fjalla, má finna greinargóða úttekt á málum hér í Qatar. Meðfylgjandi eru myndir af húsinu okkar og skjáskot af www.ilo.org.
Þegar maður skrifar svona pistil þá er víst mikilvægt að taka það skýrt fram að ég styð ekki mannréttindabrot né illa meðferð á fólki, langt því frá en mér finnst að heimamenn eigi meira skilið fyrir viðleitni þeirra til að bæta ástandið, varðandi það hafa þeir verið samstarfsfúsir. Það er að auki í þeirra anda, þeir eru nefnilega framsýnir og metnaðarfullir, og heilt yfir mjög gott fólk, hvort sem þið trúið því eða ekki.
Megas og Tolli sungu um að svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað og ágætt að nota það annað kastið. Áhugasamir um skít og mannréttindi og fleira í þeim dúr gætu skoðað F1 grand prix í Abu Dabi. Það yrði krassandi að skoða bakgrunninn þar. Bara svona sem dæmi.
Það sem þó sannarlega er skelfilegt og ekki breytt eða unnið í að nokkru leyti, svo ég viti, eru kynferðisbrot. Það er bannað með Sharialögum að halda framhjá sem eitt og sér væri alveg í lagi en ef konu er nauðgað af einhverjum öðrum en hennar eigin manni þá yrði henni refsað fyrir kynlíf utan hjónabands en ofbeldismaðurinn myndi sleppa. Það er algjörlega galið og eitthvað sem Qatar þurfa og ættu að lagfæra sem allra fyrst. Skilst að hvernig þeir framfylgja lögunum sé meira vandamál en lögin sjálf. Trúin og trúarbrögðin er hér, eins og svo oft áður, að þvælast fyrir og ekki í takt við nútímann.
Bendi á þetta bara til að sýna að það er margt sem þarf að laga og bæta, margt sem er galið og yfirleitt tengist það trúnni. Það tekur tíma að vinda ofan af því.
Það breytir ekki því þó að mér finnst að þeir eigi að fá hrós fyrir það sem þeir hafa nú þegar breytt og eru að vinna í að breyta og laga.
Læt þetta duga að sinni en ég gæti skrifað um mjög margt fleira um lífið hérna við flóann, það er oft erfitt, hér er margt flókið og þungt í vöfum, pirrandi og svo ólíkt því sem við eigum að venjast. En þannig var það og er líklega enn á Íslandi sem og annars staðar.
Þakka þeim sérstaklega sem nenntu að lesa alla leið hingað.
Bestu kveðjur frá Qatar og gleðilega HM keppni.