Ástralir tryggðu sér keppnisrétt í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í fótbolta í Katar með því að sigra Danmörku 1:0 í lokaumferð D-riðilsins í dag.
Túnis sigraði Frakkland 1:0 og hefði komist áfram ef Dönum hefði tekist að jafna metin.
Mathew Leckie skoraði sigurmark Ástralíu gegn Danmörku á 61. mínútu.
Wahbi Khazri skoraði sigurmark Túnis gegn Frakklandi á 58. mínútu.
Frakkland vann riðilinn með 6 stig, Ástralía varð í öðru sæti með 6 stig, Túnis fékk 4 stig og Danmörk rak lestina með eitt stig. Það skýrist í kvöld hverjir mótherjar Frakka og Ástrala verða en Ástralir mæta liðinu sem vinnur C-riðilinn og Frakkar mæta liðinu sem endar í öðru sæti. Þar geta Pólverjar, Argentínumenn, Sádi-Arabar og Mexíkóar allir farið áfram.
Nader Ghandri skoraði laglegt mark fyrir Túnis gegn Frakklandi á 9. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu.
Daninn Mathias Jensen átti hörkuskot á mark Ástrala á 11. mínútu en Mathew Ryan varði vel.
Túnisar vildu fá vítaspyrnu á 13. mínútu þegar Wahbi Khazri féll í vítateig Frakka en dómarinn harðneitaði að skoða það frekar.
Ástralir björguðu á síðustu stundu í markteig sínum á 19. mínútu eftir þunga pressu Dana og fyrirgjöf frá Joakim Mæhle. Aftur var hætta á svipuðum slóðum á 30. mínútu en þeirri sókn lauk með því að Christian Eriksen skaut framhjá marki Ástrala.
Túnisar komust í ágætt færi gegn Frökkum á 30. mínútu, Anis Slimane skallaði að marki en Steve Mandanda varði vel. Hann þurfti aftur að vera vel á verði á 35. mínútu og verja fast skot Wahbi Khazri frá vítateig.
Ástralir áttu hættulega sókn á 41. mínútu en henni lauk með því að Mitchell Duke skaut föstu skoti beint á Kasper Schmeichel í marki Dana.
Staðan var 0:0 í báðum leikjum þegar flautað var til hálfleiks.
Aissa Laidouni miðjumaður Túnis átti hörkuskot rétt yfir franska markið úr þröngu færi í vítateignum á 53. mínútu.
Túnis náði forystunni gegn Frakklandi á 58. mínútu. Wahbi Khazri lék upp völlinn og að vítateigslínunni þar sem hann renndi boltanum með jörðu í hægra hornið, 1:0.
Þar með var Túnis komið í annað sæti riðilsins á betri markatölu en Ástralía.
Ástralir náðu forystunni gegn Dönum á 61. mínútu. Mathew Leckie komst inn í vítateiginn í hraðri sókn eftir sendingu frá Riley McGree og renndi boltanum framhjá Kasper Schmeichel, 1:0.
Ástralir voru með þessu komnir í annað sætið með sex stig, á undan Túnis með fjögur.
Didier Deschamps gerði þrefalda skiptingu hjá Frökkum á 63. mínútu og sendi m.a. Kylian Mbappé til leiks.
Danir bættu við sóknarmönnum á 70. mínútu og settu Andreas Cornelius og Robert Skov inn á.
Aymen Dahmen í marki Túnis varði vel frá Ousmane Dembélé á 82. mínútu.
Frakkar og Danir sóttu án afláts á lokamínútum leikjanna. Litlu munaði að Andreas Cornelius jafnaði fyrir Dani í uppbótartímanum en hann skallaði rétt yfir mark Ástrala.
Ástralir héldu þetta út og fögnuðu gríðarlega þegar flautað var til leiksloka. Þeir voru þar með komnir í sextán liða úrslit í annað sinn í sögunni.
Antoine Griezmann virtist hafa jafnað metin fyrir Frakka, 1:1, á áttundu mínútu uppbótartímans með föstu skoti úr vítateignum. En eftir ítarlega skoðun var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Lið Ástralíu:
Mark: Mathew Ryan.
Vörn: Milos Degenek, Harry Souttar, Kye Rowles, Aziz Behich.
Miðja: Mathew Leckie (Ajdin Hrustic 89.), Jackson Irvine, Aaron Mooy, Craig Goodwin (Kenau Baccus 46.)
Sókn: Mitchell Duke (Jamie Maclaren 82.), Riley McGree (Bailey Wright 74.)
Lið Danmerkur:
Mark: Kasper Schmeichel.
Vörn: Rasmus Kristensen (Alexander Bah 46.), Joachim Andersen, Andreas Christensen, Joakom Mæhle (Andreas Cornelius 70.)
Miðja: Pierre-Emile Höjberg, Christian Eriksen, Mathias Jensen (Mikkel Damsgaard 59.)
Sókn: Andreas Skov Olsen (Robert Skov 70.), Maartin Braithwaite (Kasper Dolberg 59.), Jesper Lindström.
Lið Frakklands:
Mark: Steve Mandanda.
Vörn: Axel Disasi, Raphaël Varane (William Saliba 63.), Ibrahima Konaté, Eduardo Camavinga.
Miðja: Youssuf Fofana (Antoine Griezmann 73.), Aurélien Tchouaméni, Jordan Veretout (Adrien Rabiot 63.)
Sókn: Matteo Guendouzi (Ousmane Dembélé) 79.), Randal Kolo Muani, Kingsley Coman (Kylian Mbappé 63.)
Lið Túnis:
Mark: Aymen Dahmen.
Vörn: Yassine Meriah, Nader Ghandri, Montassar Talbi.
Miðja: Wajdi Kechrida, Ellyes Skhiri, Aissa Laidouni, Ali Maaloul.
Sókn: Anis Ben Slimane (Ali Abdi 83.), Wahbi Khazri (Issam Jebali 60.), Mohamed Romdhane (Ghaylen Chaaleli 75.)