Marokkó varð í dag fyrsta Afríkuþjóðin til þess að komast í undanúrslit heimsmeistaramóts karla í fótbolta eftir 1:0 sigur á Portúgal í Doha í Katar.
Youssef En-Nesyri skoraði sigurmarkið er hann stangaði boltann í netið á 42. mínútu eftir flotta fyrirgjöf frá Yahia Attiyat Allah.
Marokkó vann Spán í vítaspyrnukeppni eftir 0:0 jafntefli í 16-liða úrslitunum en Portúgal vann stórsigur á Sviss, 6:1. Sigurliðið mætir Englandi eða Frakklandi í undanúrslitum miðvikudagskvöldið 14. desember.
Strax á fimmtu mínútu fékk Joao Félix hörku skallafæri eftir háa sendingu frá Bruno Fernandes úr aukaspyrnu. Yassine Bono var þó vandanum vaxinn í marki Marokkó og varði vel. Tveimur mínútum síðar fékk Youssef En-Nesyri einnig gott skallafæri eftir hornspyrnu er hann var einn á auðum sjó í teignum. Skalli hans var hinsvegar lélegur og langt yfir fór boltinn.
Á 31. mínútu var svo Félix aftur líklegur. Þá skoppaði boltinn fyrir hann rétt utan teigs og hann tók utanfótarskot sem var á leiðinni að fjærstönginni en Jamad Ell Yamiq í vörn Marokkó komst fyrir boltann sem fór af honum og rétt yfir.
Selmin Amallah fékk svo fínt skotfæri fjórum mínútum síðar en hann hitti boltann afar illa og skaut lengst yfir.
Sofiane Boufal, sóknarmaður Marokkó, kom sér svo í fínt skotfæri á 36. mínútu en skot hans var laust og í fangið á Diogo Costa.
Á 42. mínútu komst svo Marokkó yfir. Þá kendi Yahia Attiyat Allah háa sendingu fyrir sem stefndi í fangið á Diogo Costa. Youssef En-Nesyri stökk þó hæst í teignum og komst á undan í boltann og stangaði hann í grasið og þaðan skoppaði hann í netið. Glæsilega gert hjá En-Nesyri og Marokkó komið yfir.
Mínútu síðar sendi Bruno Fernandes fyrirgjöf fyrir sem hafnaði í slánni. Nokkru seinna vildi hann svo meina að brotið hafi verið á honum í teig Marokkó en dómaranum, Facundo Raúl Tello Figueroa, lét sér fátt um finnast.
Marokkóar geystust svo í sókn þar sem Ziyech kom boltanum á Attiyat Allah sem setti hann framhjá í góðri stöðu.
Ziyech tók svo stórhættulega aukaspyrnu inn í teiginn þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þar kýldi Costa boltanum í El Yamiq og þaðan fór boltinn rétt framhjá.
Cristiano Ronaldo og Joao Cancelo komu svo inn á í liði Portúgal mínútu síðar.
Otávio gerði svo listilega vel á 57. mínútu og kom boltanum á Goncalo Ramos sem skallaði hann framhjá úr góðri stöðu.
Fernandes fékk svo hörku skotfæri rétt utan teigs á 64. mínútu en setti boltann rétt yfir markið.
Á 83. mínútu lagði Cristiano Ronaldo svo boltann á Félix sem tók hann í fyrsta hægra megin í teignum og Félix tók viðstöðulaust skot sem stefndi í þaknetið en Yassine Bono varði meistaralega.
Fernandes þræddi svo Ronaldo í gegn á fyrstu mínútu uppbótartímans en sá síðarnefndi var í erfiðri stöðu og náði ekki nægilega góðu skoti sem Bono varði örugglega.
Varamaðurinn Walid Cheddira fékk svo tvö ansi klaufaleg gul spjöld með stuttu millibili og var rekinn af velli á þriðju mínútu uppbótartímans og Marokkó manni færri lokamínúturnar.
Miðvörðurinn Pepe fékk svo frían skalla á fjærstönginni á sjöundu mínútu uppbótartímans en skallaði boltann framhjá.
Portúgalar reyndu og reyndu að jafna metin í seinni hálfleik og fengu hörkufæri til. Inn vildi þó boltinn ekki og Marokkómenn fara því í undanúrslitin á meðan að Ronaldo og félagar eru á heimleið.
Lið Marokkó:
Mark: Yassine Bono
Vörn: Achraf Hakimi, Jawad El Yamiq, Romain Saiss, (Achraf Dari 58.) Yahia Attiyat Allah
Miðja: Azzedine Ounahi, Sofyan Amrabat, Selim Amallah (Walid Cheddira 65. )
Sókn: Hakim Ziyech, (Zakaria Aboukhlal 82.) Youssef En-Nesyri, (Badr Banoune 65.) Sofiane Boufal (Yahya Jabrane 82.)
Lið Portúgals:
Mark: Diogo Costa
Vörn: Diogo Dalot (Ricardo Horta 79.), Pepe, Ruben Dias, Raphael Guerreiro (Joao Cancelo 51.)
Miðja: Otávio, (Vitinha 70.) Ruben Neves, (Cristiano Ronaldo 51.) Bernardo Silva, Bruno Fernandes
Sókn: Goncalo Ramos, (Rafael Leao 70.) Joao Félix