Annað heimsmeistaramótið í fótbolta karla í röð vinnur Króatía til verðlauna en liðið vann Marokkó 2:1 í leiknum um þriðja sætið á HM í Katar í dag.
Josko Gvardiol kom Króatíu yfir með frábærum skalla eftir aukaspyrnu strax á 7. mínútu en Achraf Dari jafnaði metin einungis um mínútu síðar. Mislav Orsic kom Króatíu svo aftur yfir á 42. mínútu með frábæru skoti frá vinstra vítateigshorni, í stöngina og inn.
Það voru Króatar sem byrjuðu leikinn talsvert betur og miðvörðurinn Josko Gvardiol kom þeim í 1:0 með góðum skalla á 7. mínútu. Luka Modric átti þá aukaspyrnu sem Ivan Perisic skallaði þvert fyrir markið á Gvardiol sem stangaði boltann í netið.
Eftir markið brunaði Marokkó upp völlinn og var það markaskorarinn Gvardiol sem braut af sér. Eftir aukaspyrnuna endaði boltinn hjá Achraf Dari sem skallaði boltann framhjá Dominik Livakovic í marki Króata. Staðan því orðin 1:1 eftir minna en 10 mínútna leik.
Eftir þessar frábæru upphafsmínútur róaðist leikurinn örlítið en bæði lið fengu þó fín tækifæri til að bæta við mörkum. Króötum tókst það á 42. mínútu en Mislav Orsic átti þá gullfallegt skot frá vinstra vítateigshorni, í fjærstöngina og inn, algjörlega óverjandi fyrir Yassine Bounou í marki Marokkó. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því 2:1 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en greinileg þreytumerki voru á báðum liðum. Krafturinn í liðunum virtist minnka með hverri mínútunni sem leið og mátti sjá að þetta væru lið sem voru búin að spila nánast heilt heimsmeistaramót á stuttum tíma. Báðir miðverðir Marokkó þurftu m.a. að fara að velli vegna meiðsla og bættust því á langan meiðslalista liðsins, þar sem fyrir voru sem dæmi miðverðirnir sem byrjuðu mótið hjá liðinu.
Á 75. mínútu fékk Youssef En-Nesyri sannkallað dauðafæri til að jafna metin fyrir Marokkó en Dominik Livakovic varði glæsilega frá honum. Boltinn barst þá til En-Nesyri á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá vinstri en Livakovic var fljótur að hugsa og lokaði vel.
En-Nesyri fékk einn séns til viðbótar á 6. mínútu uppbótartímans en aftur brást honum bogalistin og skalli hans fór hárfínt yfir markið.
Lið Króatíu:
Mark: Dominik Livakovic.
Vörn: Josip Stanisic, Josip Sutalo, Josko Gvardiol, Ivan Perisic.
Miðja: Luka Modric, Mateo Kovacic, Lovre Majer (Mario Pasalic 66.).
Sókn: Andrej Kramaric (Nikola Vlasic 61.), Marko Livaja (Bruno Petkovic 66.), Mislav Orsic (Kristijan Jakic 90.).
Lið Marokkó:
Mark: Yassine Bounou.
Vörn: Achraf Hakimi, Achraf Dari (Badr Benoune 64.), Jawad El Jamiq (Selim Amallah 68.), Yahia Attiyat Allah.
Miðja: Bilal El Khannous (Azzedine Ounahi 56.), Sofyan Amrabat, Abdelhamid Sabiri (Ilias Chair 46.).
Sókn: Hakim Ziyech, Youssef En-Nesyri, Sofiane Boufal (Anass Zaroury 64.).