Krefja Messi um afsökunarbeiðni

Lionel Messi fagnar með heimsmeistarabikarinn í gærkvöldi.
Lionel Messi fagnar með heimsmeistarabikarinn í gærkvöldi. AFP/Kirill Kudryavtsev

Gianni Merlo, formaður alþjóðasamtaka íþróttafréttamanna, AIPS, hefur sent frá sér yfirlýsingu fyrir hönd samtakanna þar sem hann krefur Lionel Messi, fyrirliða heimsmeistara Argentínu í knattspyrnu karla, um afsökunarbeiðni.

Ástæðan fyrir því er myndskeið af Messi og liðsfélögum hans eftir að þeir tryggðu sér heimsmeistaratitilinn þar sem heyra má og sjá þá syngja níðsöng um fréttamenn.

Lauslega þýddur er söngurinn á þessa leið:

„Styðjum landsliðið, styðjum það til dauða því ég elska Argentínu, því það er tilfinning sem ég ber í hjarta mér. Og mér er sama um hvað þessir hóru-fréttamenn segja.“

The Independent hefur birt myndbandið af Argentínumönnum að syngja sönginn.

Yfirlýsing Merlo fyrir hönd AIPS:

„Lionel Messi er án vafa númer eitt í fótbolta, fyrirliði argentínska landsliðsins sem vann HM, en af þeim sökum ætti hann að biðjast afsökunar fyrir hönd liðsins vegna söngsins sem hann söng með liðsfélögum sínum og móðgaði okkur fréttamenn, alla sem tilheyra stétt okkar.

VIRÐING – Það kann að vera að hann sé virtur milljarðamæringur en hann verður einnig að virða þá sem hafa lagt sitt af mörkum, af eldmóði og lausir við eiginhagsmuni, við að skapa goðsögn hans.

MÓÐGUNIN – Það var indælt að sjá hann á vellinum með fjölskyldu sinni, allir samglöddust honum. En hvað mun almenningur og fjölskyldur fréttamanna, sem hefur verið lýst sem „hórum“ („hóru-fréttamönnum“) af manneskjum sem gerast stundum sekir um vafasama hegðun sem getur varðað við lög, nú telja?

AFSÖKUNARBEIÐNI – Ásamt leikmönnunum voru einnig starfsmenn Argentínska knattspyrnusambandsins að syngja og það er enn alvarlegra. Við skulum vona að einhverjir þeirra átti sig á broti sínu og biðjist afsökunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert