HM: „Túnis með öflugt lið“

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins í milliriðli HM í handknattleik fer fram í Dortmund í dag og hefst leikurinn kl. 16:30. Gríðarleg spenna er fyrir viðureignina í herbúðum leikmanna og stuðningsmanna Íslands en uppselt er á leikinn.

Birkir Ívar Guðmundsson markvörður segir að hann hafi litlar sem engar upplýsingar um Túnis-liðið en félagi hans úr íslenska landsliðinu, Sverre Jakobsson, segir að Túnis ætli sér stóra hluti á heimsmeistaramótinu en Túnis tapaði gegn Frökkum í leik um bronsverðlaunin á síðasta heimsmeistaramóti.

Guðmundur Guðmundsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, segir að Túnis sé með marga gríðarlega sterka leikmenn í sínum röðum og þar á meðal stórskyttuna Wissem Hmam sem var markahæstur á HM árið 2004 sem haldið var í Túnis. Viðtölin voru tekin í gær er íslenska liðið kom til Dortmund.

Alls eru 12 lið sem taka þátt í milliriðlunum tveimur á HM og er Túnis eina liðið af þessum 12 sem er ekki frá Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert