Ragnar Óskarsson yfirgaf íslenska landsliðið í handknattleik í Þýskalandi í gær og hélt heim til Frakklands þar sem eiginkona hans er komin á fæðingardeild sjúkrahúss í París þar sem þau búa, en Ragnar leikur með Ivry í frönsku 1. deildinni. Væntir hún fyrsta barns þeirra hjóna, sem gefin voru saman í vor. Ekki var ljóst í gær hvort Ragnar kemur aftur til liðs við íslenska landsliðið takist því að komast í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins.
Vegna þessa stillti Alfreð Gíslason upp sama liði gegn Pólverjum í gær og lék á móti Túnis í fyrradag.