Alfreð: „Sýndum frábæra liðsheild“

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, lifði sig að vonum inn í leikinn.
Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, lifði sig að vonum inn í leikinn. AP
Eftir Víði Sigurðsson í Halle/Westfalen vs@mbl.is
„Þetta er frábært hjá strákunum og þeir hafa sýnt mikla liðsheild, meiri en flest önnur lið í keppninni,” sagði Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik við fréttavef Morgunblaðsins eftir sigurinn mikilvæga á Slóvenum, 32:31, í Halle/Westfalen í kvöld.

„Það vissu allir mikilvægi þessa leiks og við vissum líka að jafntefli myndi nægja okkur til að fara áfram. Það skipti því öllu máli að við værum ekki í einhverjum “harakiri-bolta” þarna í lokin. Við gerðum hinsvegar of mikið af léttum mistökum. Við vorum búnir að vinna okkur hægt og bítandi upp í fjögurra marka forskot og svo köstuðum við því burtu, rétt eins og gegn Pólverjunum, á mettíma. Oft á tíðum með óyfirveguðum aðgerðum, eins og missa menn framhjá okkur þegar við vorum manni fleiri, við klikkuðum á þremur vítaköstum, og svo framvegis.

Ég held að við höfum í flestum okkar leikjum sýnt frábæra liðsheild, meiri en flest önnur lið, því við höfum ekki sama varamannabekkinn, höfum ekki sömu breiddina, sömu langskotin og önnur lið og þurfum að vinna þetta allt í sameiningu,” sagði Alfreð.

Hann tók undir að markvarslan hefði verið mögnuð í leiknum. „Markverðirnir voru frábærir báðir tveir. Birkir Ívar varði mjög vel í 50 mínútur, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Hann setti líka pressu á Slóvenana og lokaði markinu rétt þannig að þeir skutu fyrir vikið framhjá markinu. Svo kom Róland inná síðustu 10 mínúturnar þegar Birkir var að byrja að gefa eftir. Hann var að vísu búinn að verja vítakast fyrr í leiknum, og frákast beint eftir það, tvö skot nánast á sömu sekúndunni, og svo kom hann aftur og nánast lokaði markinu. Hann varði úr dauðafærum og þetta var snilldarinnkoma hjá honum,” sagði Alfreð.

Rétthentu skytturnar hafa oft ekki náð sér á strik en þú hlýtur að vera ánægður með þeirra hlut í kvöld?

„Já, Logi var frábær í kvöld, var með mjög góða nýtingu, var á hreyfingu og spilaði kerfin eins og átti að gera. Það hefur stundum loðað við hann að eiga erfitt með að finna hlaupaleiðirnar en hann skilaði því frábærlega. Manni færri skoraði hann mikilvæg mörk. Svo kom Markús inná og skoraði tvö mikilvæg mörk, þannig að vinstri bakkararnir skiluðu meiru en oftast áður. Sama gerði Óli hægra megin þegar leið á leikinn en hann sýndi sig ekki mikið í fyrri hálfleiknum,” sagði Alfreð Gíslason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert