Ólafur Stefánsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik sagði við fréttavef Morgunblaðsins eftir sigurinn á Slóveníu, 32:31, í Halle/Westfalen í kvöld sigurinn hefði verið sanngjarn en það hefði verið óþarfi að koma Slóvenunum inní leikinn á lokamínútunum.
Eftir Víði Sigurðsson í Halle/Westfalen
vs@mbl.is
“Já, þetta hafðist að lokum, við vorum með leikinn í höndunum en vorum við það að klúðra honum í lokin. Við komum þeim inn í leikinn, ég fékk mjög dýra brottvísun þegar 7-8 mínútur voru eftir, og svoleiðis má ekki gerast. Við vorum líka svolítið óheppnir með skotin, sum voru ótímabær, og ég og Snorri létum verja frá okkur með þeim afleiðingum að Slóvenarnir gátu minnkað muninn. En við vorum betri og sýndum að við vildum vinna og uppskárum laun erfiðsins.”
Ólafur sagði að markvarslan hefði skipt sköpum fyrir íslenska liðið. “Já, þetta voru mjög dýrmæt skot sem þeir vörðu, sérstaklega í lokin, og ég þakka markvörðunum okkar kærlega fyrir að koma okkur til bjargar. Annars var vörnin þokkaleg allan tímann og ég er sáttur við þá Sverre, Sigfús og Vigni.
Þetta var í raun mjög svipað hjá okkur og í leiknum gegn Pólverjunum. Við hefðum getað verið með meiri forystu eftir fyrri hálfleikinn, hefðum getað verið fimm til sex mörkum yfir, en við klúðruðum dauðafærum og verðum að fara að læra af þessu.”
Nú er liðið komið í átta liða úrslit. Hvaða máli skiptir leikurinn við Þjóðverja á morgun í þessari stöðu?
“Hann skiptir bara öllu máli. Við erum ekki með síðra lið en Þjóðverjar þó þeir fái kannski dómarana og höllina með sér. Það verður bara gaman að spila þennan leik og við ætlum okkur að vinna hann og koma okkur í sem besta stöðu í riðlinum, um leið og við reynum að laga það sem við höfum gert vitlaust,” sagði Ólafur Stefánsson.