Ísland í fyrsta, öðru eða þriðja sæti?

Ólafur Stefánsson í baráttunni gegn Frökkum.
Ólafur Stefánsson í baráttunni gegn Frökkum. Reuters
Eftir Víði Sigurðsson í Dortmund vs@mbl.is
Ísland mætir Þýskalandi í lokaumferð milliriðilsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik í dag kl. 14.30 en leikurinn fer fram í Westfalen-höllinni í Dortmund. Hún verður troðfull og stuðningur við þýska liðið er gífurlegur. Fyrir leikinn eru þrír möguleikar fyrir hendi hjá íslenska liðinu.

1) Sigur á Þjóðverjum þýðir að Ísland endar í fyrsta eða öðru sæti. Fyrsta sæti ef Pólland vinnur ekki Slóveníu, öðru sæti ef Pólland vinnur Slóveníu.

2) Jafntefli þýðir að Ísland endar í öðru eða þriðja sæti. Öðru ef Pólland tapar fyrir Slóveníu, þriðja ef Pólland tapar ekki fyrir Slóveníu.

3) Tap þýðir að Ísland hafnar í þriðja sæti riðilsins, nema Pólland tapi fyrir Slóveníu og Frakkland vinni Túnis. Þá yrðu Ísland, Frakkland og Pólland jöfn með 6 stig og Ísland væri með besta útkomu í innbyrðis leikjum þessara þriggja liða og næði því öðru sæti. Ísland getur aldrei endað í fjórða sæti vegna sigursins á Frökkum, sama hvernig fer.

Ef lið eru jöfn að stigum eru það innbyrðis úrslit þeirra á milli sem ráða röð þeirra. Ísland er því alltaf fyrir ofan Frakkland en fyrir neðan Pólland - nema Ísland, Pólland og Frakkland séu öll jöfn. Þá myndu Pólverjar detta niður í fjórða sætið vegna lökustu markatölu í innbyrðis leikjum þessara þriggja liða, sem unnu hvert annað.

Fimm þjóðir koma enn til greina sem mótherjar Íslendinga í 8-liða úrslitunum á þriðjudag. Króatía, Spánn, Ungverjaland, Danmörk og Rússland. Staðan í hinum milliriðlinum er snúin.

Króatía og Spánn geta bæði endað í fyrsta sæti, sem er eina sætið sem Ísland getur ekki lent gegn.

Króatía, Spánn og Danmörk geta öll endað í öðru sæti og orðið mótherjar Íslendinga ef þeir enda í þriðja sæti í sínum riðli.

Spánn, Ungverjaland, Danmörk og Rússland geta öll lent í þriðja sæti og orðið mótherjar Íslendinga ef þeir enda í öðru sæti.

Spánn, Ungverjaland, Danmörk og Rússland geta líka öll lent í fjórða sæti og orðið mótherjar Íslendinga ef þeir vinna riðilinn.

Þessi staða skýrist betur eftir því sem líður á daginn og fleiri úrslit liggja fyrir en leikur Íslendinga og Þjóðverja er fyrsti leikur dagsins. Síðasti leikurinn er á milli Dana og Tékka klukkan 19.15 og það er ekki fyrr en að honum loknum sem það verður endanlega ljóst hvaða þjóðir mætast í átta liða úrslitunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert