HM: Ísland er með frábæra leikmenn

Ulrik Wilbek er oft líflegur á hliðarlínunni.
Ulrik Wilbek er oft líflegur á hliðarlínunni. Reuters

„Ísland er lið sem virðist alltaf eiga leikmenn sem taka af skarið þegar aðrir efast um styrkleika þeirra. Í hvert sinn sem lið finn veikleika á íslenska liðinu virðast þeir leikmenn taka við sér og sýna hvað í þeim býr,“ segir Ulrik Wilbek þjálfari danska landsliðsins í handknattleik við Berlingske Tidene í dag.

Hann nefnir Loga Geirsson frá Lemgo og Valsmanninn Markús Máni Michaelsson sem hafa ýtt Arnóri Atlasyni, markahæsta leikmanni dönsku úrvalsdeildarinnar, til hliðar en Wilbek telur Arnór sterkan leikmann sem hafi minnt verulega á sig á Evrópumeistaramótinu í Sviss í fyrra.

Ólafur stjarna liðsins

„Stjarna liðsins er að sjálfsögðu Ólafur Stefánsson sem hefur skotið meira á markið en oft áður,“ segir danski þjálfarinn en hann telur að hornamennirnir Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson séu í sérflokki. Hann nefnir einnig að Snorri Steinn Guðjónsson sé áræðinn og brjótist oft í gegnum varnir andstæðingana. Íslensku línumennirnir eru sterkir að mati þjálfarans, Róbert Gunnarsson og hinn 114 kg. þungi Sigfús Sigurðsson getur einnig látið að sér kveða.

Wilbek segir að varnarleikur Íslands sé fjölbreyttari en hjá danska landsliðinu og hraðaupphlaupin séu sterkasta vopn Íslands.

Jafntefli og framlenging?

Fjórum leikjum af síðustu fimm í viðureignum Íslands og Danmerkur hefur lokið með jafntefli. Liðin áttust við í riðlakeppni Evrópumeistaramótsins fyrir ári síðan í Sviss þar sem að liðin skildu jöfn, 28:28, en í þeim leik lék Ólafur Stefánsson ekki með liðinu vegna meiðsla. Liðin áttust við á Lauritz Knudsen-æfingamótinu í Danmörku fyrir þremur vikum og þar gerðu liðin jafntefli, 28:28.

Alls hafa liðin mæst í 93 leikjum. Danir hafa unnið 47 leiki, Ísland hefur unnið 33 leiki og 13 sinnum hafa leikirnir endað með jafntefli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka