Guðmundur Guðmundsson aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands hrósaði leikmönnum liðsins í hástert þrátt fyrir 42:41-tap liðsins gegn Dönum í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik. Í sjónvarpsviðtali eftir leikinn sagði Guðmundur að varnarleikur liðsins hefði aldrei náð sér á strik gegn stórskyttum danska liðsins.
„Ég held við getum verið stolt af íslenska liðinu sem sýndi stórkostlega baráttu gegn sterku liði. Það eru smáatriði sem skilja á milli þegar uppi er staðið. Varnarleikurinn hefur verið betri og við reyndum þrjú varnarafbrigði gegn skyttum danska liðsins,“ sagði Guðmundur en hann var einnig spurður um framhaldið hjá íslenska liðinu - sem leikur gegn Rússum á fimmtudaginn. „Ég held að við bíðum aðeins eftir að hugsa um þann leik, “ sagði Guðmundur.