Íslendingar með lakasta en skemmtilegasta liðið

Íslenska liðið er í áttunda sæti af þeim átta liðum …
Íslenska liðið er í áttunda sæti af þeim átta liðum sem eftir eru í keppninni, að mati Fitzeks. Morgunblaðið/Günter Schröder

Christian Fitzek, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands í handknattleik, segir að Ísland sé með lakasta liðið af þeim átta sem í dag hefja lokaslaginn um heimsmeistaratitilinn í Þýskalandi, en samt það skemmtilegasta. Hann spáir Króötum heimsmeistaratitlinum og á von á að Pólverjar fari alla leið í gegnum leikina í Hamborg og mæti þeim.

Eftir Víði Sigurðsson í Hamborg
vs@mbl.is

Fitzek, sem nú er 45 ára gamall og lék á sínum tíma 114 landsleiki fyrir Þýskaland, er framkvæmdastjóri handknattleiksliðs Hamborgar. Hann er sérfræðingur dagblaðsins Hamburger Abendblatt og fer í blaðinu í dag yfir liðin átta sem mætast í kvöld. Króatía - Frakkland og Þýskaland - Spánn mætast í Köln og í Hamborg eigast við Pólland - Rússland og Ísland - Danmörk.

Þetta segir Fitzek um liðin átta og setur þau í eftirfarandi röð, eins og hann metur möguleika þeirra á heimsmeistaratitlinum:

1. Króatía. Ólympíumeistararnir eru efstir á blaði hjá mér. Lino Cervar þjálfari hefur náð að gera samheldið lið úr herskara einstaklingshyggjumanna, og hleypt í þá eldmóði. Þeir hafa sýnt sjö stórgóða leiki í mótinu. Nái Cervar að viðhalda þessu, verða þeir óstöðvandi til loka mótsins.

2. Þýskaland. Liðið hefur stöðugt bætt sig í keppninni, hefur náð að spila sig saman, hefur öðlast sjálfstraust, og sýndi heimsklassa frammistöðu í sigrinum á Frökkum.

3. Frakkland. Evrópumeistararnir hafa valdið mér mestum vonbrigðum á HM. Öfugt við króatískan kollega sinn hefur Claude Onesta ekki náð neinum slagkrafti í sitt lið. Frakkarnir hafa enn ekki náð saman inni á vellinum. En þeirra styrkur er hve marga góða einstaklinga þeir hafa í sínum röðum. Ekkert lið er eins vel mannað. Takist þeim að nýta hæfileika sína og koma skyttunni Jeróme Fernandez inn í leikinn, verða þeir meistarar.

4. Spánn. Heimsmeistararnir hafa þegar tapað tvisvar í keppninni, gegn Danmörku og Króatíu, og það var nokkuð óvænt. En skytturnar og bræðurnir Alberto og Raúl Entrerrios geta afgreitt hvaða lið sem er. Leikur Spánverja er kraftmikill og það er líkamsstyrkurinn sem er þeirra vopn. Það er hinsvegar hætt við að það dragi af þeim eftir því sem líður á svona langa keppni.

5. Pólland. Það lið sem hefur komið skemmtilegast á óvart á HM. Þeir eru með magnaðar skyttur, Marcin og Krzysztof Lijewski, Grzegorz Tkaczyk og Karol Bielecki, og markvörðurinn Slawomir Szmal er orkubolti. Pólverjum líkar það ekki þegar skytturnar þeirra eru klipptar út og þær missa við það slagkraftinn. En Pólverjar eru í veikari hópnum, sem spilar í Hamborg, og eiga glæsilega möguleika á að komast í úrslitaleikinn.

6. Danmörk. Danska liðið leikur af eldmóði og ástríðu og það er sterkasta vopn þess. Svo eru innanborðs leikmenn í fremstu röð eins og Lars Christiansen, Joachim Boldsen, Sören Stryger, Hans Lindberg og markvörðurinn Kasper Hvidt. Akkílesarhæll liðsins er hinsvegar taugaslappleikinn, eins og tapið gegn Ungverjum sýndi best.

7. Rússland. Fyrir keppnina spáði ég Rússum góðu gengi en samt eru þeir ekki líklegir til að fara alla leið. Það eru margir meiddir í liði Rússa en þeir kunna hinsvegar að spila handbolta. Vörnin, hraðaupphlaupin og vinstri hornamaðurinn Eduard Kokcharov eru styrkleikar liðsins, sem og hinn klóki og reyndi þjálfari, Vladimir Maximov.

8. Ísland. Þetta er skemmtilegasta liðið í keppninni. Það stendur hinum sjö að baki í styrkleika en er hinsvegar með Ólaf Stefánsson í sínum röðum og hann getur farið langt með að brúa bilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert