Ákveðið hefur verið að íslensku landsliðsmennirnir haldi hver til síns heima á sunnudagsmorgun og jafnvel kemur til álita að einhverjir þeirra haldi heim til sín annað kvöld um leið og íslenska landsliðið hefur lokið keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Þýskalandi með leik við Spánverja um sjöunda sæti. Flestir leikmenn landsliðsins búa í Þýskalandi hvort sem er og er ekki talin nein ástæða til þess að halda þeim frá fjölskyldum sínum lengur en þörf er á.
Í dag er hálfur mánuður síðan íslenska landsliðið hóf keppni á HM með viðureign við Ástrala í Bördelandhalle í Magdeburg. Landsliðsmennirnir hafa þó verið lengur að heiman en það, því áður en þeir komu hingað til Þýskalands höfðu þeir verið í æfingabúðum í Danmörku og heima á Íslandi enda hefur nær allur síðasti mánuður farið í undirbúning og þátttöku í heimsmeistaramótinu.