Þjóðverjar eru heimsmeistarar í handknattleik karla eftir að hafa lagt Pólverja að velli í úrslitaleik í Köln í Þýskalandi í dag, 29:24. Staðan í hálfleik var 17:13 fyrir Þjóðverja og í síðari hálfleik náðu Þjóðverjar að komast í 21:14. Pólland náði fínni skorpu í kjölfarið og minnkuðu muninn í 22:21 en nær komust þeir ekki.
„Fyrir þremur vikum síðan þá hafði ég ekki mikla trú á því að okkur tækist að sigra á þessu móti. Vandamálin sem við vorum að glíma við voru mörg. Það mun taka tíma fyrir okkur að átta okkur á því hvað við erum búnir að afreka,“ sagði Heiner Brand þjálfari Þjóðverja eftir leikinn en hann var leikmaður í heimsmeistaraliði Þjóðverja árið 1978.
Þjóðverjar sigruðu á fyrsta heimsmeistaramótinu sem fram fór árið 1938 en árið 1978 sigruðu V-Þjóðverjar á HM sem fram fór í Danmörku. Þetta er því þriðji heimsmeistaratitill Þjóðverja en það eru 29 ár síðan Þýskaland landaði síðast heimsmeistaratitli í handknattleik.
Pólverjar hafa aldrei áður leikið til úrslita á HM en árið 1982 náðu Pólverjar bronsverðlaunum á HM.
Mörk Þýskalands:Torsten Jansen 8, Pascal Hens 6, Michael Kraus 4, Florian Kehrmann 4/1, Christian Zeitz 3, Holger Glandorf 2, Oliver Roggis 1, Andrej Klimovets 1, Lars Kaufmann 1, Christian Schwarzer 1.
Mörk Póllands:Mariusz Jurasik 5, Grzegorz Tkaczyk 5, Karol Bielecki 3, Bartosz Jurecki 2, Tomasz Tluczynski 2, Krzysztof Lijewski 1, Mateusz Jachlewski 1, Artur Siodmiak 1, Damian Wleklak 1, Michal Jurecki 1, Rafal Kuptel 1, Marcin Lijewski 1.
Þau lið sem hafa fagnað heimsmeistaratitli frá árinu 1938 eru:
1938 Þýskaland
1954 Svíþjóð
1958 A-Þýskaland
1961 Rúmenía
1964 Rúmenía
1967 Sovétríkin
1970 Rúmenía
1974 Rúmenía
1978 Þýskaland
1982 Sovétríkin
1986 Júgóslavía
1990 Svíþjóð
1993 Rússland
1995 Frakkland
1997 Rússland
1999 Svíþjóð
2001 Frakkland
2003 Króatía
2005 Spánn