Draumarnir mínir hafa ræst

Alexander Petersson, íþróttamaður ársins.
Alexander Petersson, íþróttamaður ársins. mbl.is/Kristinn

„Ég er sennilega á toppnum um þessar mundir. Orðinn þrítugur og í góðu líkamlegu formi. Vonandi get ég haldið áfram að leika handknattleik í fremstu röð í fjögur til fimm ár til viðbótar,“ sagði Alexander Petersson, nýkjörinn íþróttamaður ársins 2010, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi eftir að hann hafði hlotið sæmdarheitið í fyrsta sinn.

„Vonandi tekst að fylgja í fótspor fyrirmyndar minnar, Ólafs Stefánssonar, og eiga mín bestu ár í boltanum frá þrítugu og fram að þrjátíu og fimm ára aldrinum. Ég vinn þetta kjör kannski aftur áður en ferillinn er allur, hver veit?“ sagði Alexander léttur í bragði.

Alexander gekk til liðs við Füchse Berlin á liðnu sumri eftir þriggja ára veru hjá Flensburg. Hann segist vera afar ánægður með vistina hjá Berlínarliðinu sem hann er með samning við fram á mitt næsta ár. „Forráðamenn Füchse Berlín hafa boðið mér nýjan samning þannig að ég tel mig vera í góðum málum í augablikinu og hafa gert hárrétt með því að færa mig um set yfir til Berlínar.

Ég hef ekki svarað forráðamönnum Füchse ennþá en reikna með að gera það fljótlega. Kannski fyrir HM, kannski eftir HM. Ég hef bara ekki gert það upp við mig ennþá,“ segir Alexander sem hefur verið atvinnumaður í þýskum handknattleik í nærri átta ár. Auk liðanna tveggja sem nefnd eru að framan hefur hann leikið með Düsseldorf og Grosswallstadt.

Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er rætt ítarlega við Alexander Petersson, nýkjörinn íþróttamann ársins 2010.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert