Noregur sem leikur með Íslandi í B-riðli verður að öllum líkindum án tveggja sterkra leikmanna í riðlakeppninni á heimsmeistaramótinu í handbolta í Svíþjóð. Þetta eru þeir Kjetil Strand og Frank Löke.
Kjetil Strand sem spilar með Viking Stavanger er með skaðað liðband í fingri en Frank Löke, leikmaður Lübbecke, er að glíma við meiðsli í fæti.
Robert Hedin, þjálfari norska liðsins, segir útilokað að Löke nái riðlakeppninni en athuga á með meiðslin þegar kemur að milliriðlinum ef Noregur tryggir sig áfram. Kjetil Strand átti að vera með á æfingu í gær en talið er líklegt að hann verði heldur ekki með fyrr en í milliriðli.
Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.