Lajos Mocsai, þjálfari ungverska landsliðsins í handknattleik, segir að markmið þess sé að ná einu af sjö efstu sætunum á HM í Svíþjóð og komast þar með í keppnina um sæti á Ólympíuleikunum 2012.
Ísland mætir Ungverjalandi klukkan 16 í dag í opnunarleik HM. Ungverskir fjölmiðlar segja að þar verði við ramman reip að draga fyrir lið þeirra, þar sem Ísland sé silfurverðlaunahafi frá síðustu Ólympíuleikum, en benda á að Ungverjar hafi betri útkomu í leikjum sínum gegn Íslandi í gegnum árin.
„Draumurinn er að verða með í baráttunni um að komast á Ólympíuleikana," sagði Mocsai við Sporthirado. Hann er í smá vandræðum vegna meiðsla. Miðjumaðurinn Nikola Eklemovics er ekki með liðinu í Svíþjóð og þá er skyttan Balázs Laluska ekki leikfær í dag en Mocsai vonast eftir því að geta notað hann síðar í mótinu.