Ísland trónir á toppnum

Þórir Ólafsson lék vel í kvöld. Hér fagnar hann einu …
Þórir Ólafsson lék vel í kvöld. Hér fagnar hann einu af fimm mörkum sínum í leiknum við Brasilíu. Reuters

Íslenska landsliðið í handknattleik er í efsta sæti B-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik með fullt hús stiga eftir öruggan átta marka sigur á Brasilíu, 34:26, í Norrköping í kvöld. Staðan í hálfleik var 19:12, Íslandi í vil sem mætir Japan næst á mánudagskvöld í Linköping.

Íslenska liðið er það eina í riðlinum sem hefur unnið tvo fyrstu leiki sína. 

Sigurinn í kvöld var aldrei í hættu. Íslenska liðið náði strax forystu og var sjö mörkum yfir í hálfleik eftir að hafa bætt nokkuð við forskotið þegar leið á hálfleikinn.

Síðari hálfleikur byrjaði nokkuð brösuglega en síðan komst íslenska liðið í gang og hafði fimm til sex marka forskot lengst af.

Allir leikmenn íslenska liðsins sem voru á leikskýrslu fengu að spreyta sig, mismikið þó. Það var jákvætt. 

Björgvin Páll varði vel í fyrri hálfleik og átti einnig nokkrar stórbrotnar sendingar á félaga sína í hraðaupphlaupum. Hann dalaði aðeins í síðari hálfleik. Hreiðar Levy lék í markinu síðustu tólf mínúturnar og stóð sig vel.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 11 mörk í 13 skotum. Alexander Petersson skoraði sjö mörk, Þórir Ólafsson 5, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson 2 mörk hvor, Aron Pálmarsson, Ingimundur Ingimundarson, Róbert Gunnarsson og Vignir Svavarsson 1 mark hver.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Guðjón Valur Sigurðsson í baráttu við varnarmann Brasilíu.
Guðjón Valur Sigurðsson í baráttu við varnarmann Brasilíu. Ljósmynd/Hilmar Þór
Nokkrir íslenskir stuðningsmenn á viðureign Íslands og Brasilíu í Norrköping.
Nokkrir íslenskir stuðningsmenn á viðureign Íslands og Brasilíu í Norrköping. Ljósmynd/Hilmar Þór
Björgvin Páll Gústavsson fagnar í leiknum við Brasilíu.
Björgvin Páll Gústavsson fagnar í leiknum við Brasilíu. Reuters
Ísland 34:26 Brasilía opna loka
60. mín. Guðjón Valur Sigurðsson (Ísland) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert