Þjóðverjar fóru illa að ráði sínu gegn Spánverjum þegar þeir töpuðu þriggja marka forskoti niður í tapaðan leik, 26:24, í A-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Kristianstad í kvöld. Þar með gæti vel farið svo að Þjóðverjar fari stigalausir í milliriðlakeppnina.
Viðureign Þjóðverja og Spánverja var lengst af í járnum. Annað hvort liðið skiptist á að vera með eins marks forystu. Í hálfleik var jafnt, 13:13, og framan af síðari hálfleik var áfram jafnt á öllum tölum. Þjóðverjar urðu á sjá á bak Lars Kaufmann og Sebastian Preiss af leikvelli með rautt spjald á fyrri hluta síðari hálfleiks. Nokkur harka var lengi vel í leiknum og á tíðum voru jafnvel tveir leikmenn utan vallar í kælingu hjá öðru hvoru liðinu.
Þjóðverjar náðu þriggja marka forskoti, 21:18, þegar rúmlega 12 mínútur voru eftir. Þeir virtust vera að ná tökum á leiknum en annað kom á daginn. Þýska liðið féll í þá gryfju að stytta sóknir sínar sem skilaði engum árangri. Spánverjar komust á bragðið og jöfnuðu metin, 21:21, þegar sex mínútur voru eftir og bættu við tveimur mörkum til viðbótar áður en Þjóðverjarnir náðu að klóra í bakkann með marki en þeir virtust hafa misst móðinn. Spánverjar náðu fjögurra marka forskoti, 26:22, og tryggðu sér sigurinn þótt þýska liðið skoraði tvö síðustu mörkin.