Magnus Andersson, hinn sænski þjálfari austurríska landsliðsins í handknattleik, segir að fyrir sína menn sé ekkert annað í boði en sigur gegn Íslendingum í Linköping í kvöld.
Austurríkismenn töpuðu fyrir Norðmönnum í gær og Japönum um helgina, og eru með bakið uppvið vegg fyrir tvo síðustu leiki sína, gegn Íslendingum og Ungverjum.
„Ég vil alls ekki segja að við séum á leið útúr keppninni. Nú þurfum við að sigra Ísland. Fyrir okkur er ekkert annað í stöðunni en að gefa allt í leikina við Ísland og Ungverjaland," sagði Andersson við fréttamenn eftir tapið gegn Noregi.
„Það eru mikil vonbrigði að hafa tapað gegn Norðmönnum en þeir eru með geysilega sterkt lið, eiga sennilega besta línumann heims og Steinar Ege var frábær í marki þeirra," sagði Andersson um leikinn við Noreg sem endaði 33:27, þeim norsku í hag.