Frábær síðari hálfleikur

Arnór Atlason skorar fyrir Ísland í leiknum í kvöld.
Arnór Atlason skorar fyrir Ísland í leiknum í kvöld. mbl.is/Hilmar Þór

Frábær varnarleikur og stórbrotin markvarsla Björgvins Páls Gústavssonar í síðari hálfleik braut austurríska landsliðið á bak aftur og varð til þess að íslenska landsliðið vann þriggja marka sigur, 26:23, eftir að það var fimm mörkum undir í hálfleik, 16:11.

Það var allt annað og mikið ákveðnara íslenskt lið sem kom til leiks í síðari hálfleik. Fæst gekk upp í þeim fyrri þar sem Íslendingarnar virtust ekki vera alveg tilbúnir í þann slag sem Austurríkismenn buðu upp á. Vörn Íslands var mikið ákveðnari í síðari hálfleik og náði hún að kæfa sóknarleik Austurríkismanna. Þá fór Björgvin Pál hamförum í markinu og varði ekki færri en 14 skot í síðari hálfleik eftir að hafa vart klukkað boltann í þeim fyrri. 

Í framhaldi af sterkri vörn og góðri markvörslu fengu Íslendingar hraðaupphlaup. Eftir 10 mínútur í síðari hálfleik hafði íslenska liðið jafnað metin, 16:16, og komst fljótlega yfir, 17:16. Austurríkismenn komu til baka og náði tveggja marka forskoti, 19:17 og 20:18. Íslenska liðið gafst ekki upp og áfram hélt Björgvin að verja vel og vörnin að halda. Ísland komst yfir á nýjan leik og átti síðustu tíu mínútur leiksins. 

Ekki aðeins var vörn og markvarsla betri hjá íslenska liðinu heldur varð sóknarleikurinn hraðari auk þess sem Íslendingunum gekk betur en áður að koma boltanum fram hjá Marinovic í marki Austurríkis.

Frábær sigur hjá íslenska liðinu sem innsiglaði endanlega sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins með þessum sigri. Vonir Austurríkis um sæti í milliriðli eru að engu orðnar.

Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni verður við Noreg kl. 18.10 á fimmtudaginn. 

Mörk Íslands: Alexander Petersson 7, Þórir Ólafsson 5/2, Arnór Atlason 3,
Ólafur Stefánsson 3, Snorri Steinn Guðjónsson 3, Guðjón Valur Sigurðsson 2, Aron Pálmarsson 2, Róbert Gunnarsson 1.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Ísland 26:23 Austurríki HM opna loka
60. mín. Aron Pálmarsson (Ísland) skoraði mark - glæsilega gert, gegnumbrot. Þá held ég að sigurinn sé í höfn þótt ég muni reyndar vel eftir leik þjóðanna á EM í fyrra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert