Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik og íþróttamaður ársins á Íslandi 2010, hefur samið við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen um að leika með því frá og með sumrinu 2012 og til ársins 2015. Þetta var tilkynnt í gær.
Forráðamenn Füchse Berlín lýstu í kjölfarið yfir vonbrigðum með að missa Alexander en sögðust ekki geta keppt á fjárhagslegum nótum við lið á borð við Löwen.
„Þetta er einfaldlega mjög stórt tækifæri fyrir mig vegna þess að Löwen er risastórt félag og ætlar sér að vera besta lið í heimi eftir tvö til þrjú ár. Ég á ekki von á öðru en að spila með Füchse Berlín út samningstímann og ég vonast til þess að gera það,“ sagði Alexander þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöldi.
Spurður um hvort hann hafi rætt málið mikið við Íslendingana hjá Löwen þá sagði Alexander það ekki vera en vissulega hafi Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari og þjálfari Löwen, lýst yfir áhuga á því að fá hann til félagsins.
„Ég ræddi þetta ekkert að ráði við leikmennina en ég talaði aðeins við Gumma. Hann sagðist vilja fá mig til félagsins sama hvað það kostar,“ sagði Alexander og glotti. Spennandi tímar eru því framundan hjá íþróttamanni ársins 2010.
„Þetta er mjög spennandi enda er Löwen hörkulið. Gummi er að byggja upp heimsklassalið rétt eins og hann hefur gert með íslenska landsliðið,“ sagði Alexander ennfremur við Morgunblaðið.