Bjarte Myrhol línumaðurinn frábæri í norska landsliðinu í handknattleik var alvarlegur á svip þegar hann tjáði norskum blaðamönnum að skýringin á góðu gengi Íslendinga á handboltavellinum sé sú að landsliðsmenn Íslands séu sóttir á eyju sem er rétt við Ísland þar sem íbúar eru 3 milljónir.
Myrhol bætti svo við að eftir umfangsmikla rannsókn hafi Norðmenn komist að því að þessi eyja sé ekki til nema í einhverjum ævintýraheimi handboltans.
Norðmenn mæta Íslendingum í afar mikilvægum leik á HM í Svíþjóð í kvöld og Myrhol mun eflaust leika stórt hlutverk með norska liðinu en hann er talinn vera einn besti línumaður í heimi.
Myrhol er liðsmaður þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen. Hann leikur þar undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara og spilar með Ólafi Stefánssyni, Guðjóni Vali Sigurðssyni og Róberti Gunnarssyni. Annar leikmaður norska landsliðsins spilar einnig með Löwen en það er varnarjaxlinn Borge Lund.
,,Guðmundur er sérfræðingur í að greina leik andstæðinganna á videói. Hann hefur örugglega farið rækilega yfir leikina okkar fjóra á HM og hann leggur síðan línurnar fyrir sína menn eftir því,“ segir Myrhol við Aftenposten.
Borge Lund segir að Íslendingar séu mjög sérstakir.
,,Ég vil nú ekki segja að þeir séu klikkaðir en í það minnsta eru þeir mjög sérstakir. Síðustu 10-15 árin hafa þeir náð að koma liði sínu í fremstu röð og á tímabili áttu þeir flesta leikmenn í þýsku Bundesligunni. Þetta hefur orðið til að efla landslið þeirra,“ segir Lund.