Bjarte Myrhol, línmaður norska landsliðsins og einn helsti varnarmaður þess, segir að dómarar leiks Íslendinga og Norðmanna í kvöld hafi leyft of mikla hörku. Myrhol ber sig aumlega eftir að hafa þurft að glíma við Ingimund Ingimundarson nær allan leikinn og yfirleitt farið halloka.
Myrhol segist ekki vilja kenna dómurunum um tapið. „Við töpum einfaldlega fyrir liðið sem er betra en okkar," sagði Myrhol í samtali við netútgáfu VG í kvöld.
Håvard Tvedten, hornamaður Norðmanna, sagði að þeir hafi verið búnir undir átök en þegar á leikinn leið þá hafi hann og samherjarnir ekki haft þrek til að halda út.
„Um tíma voru við sundurspilaðir,“ sagði Kristian Kjelling við VG. „Nokkrar sóknir okkar fóru forgörðum og það nýtti íslenska liðið sér til þess að „keyra“ á okkur með hraðaupphlaupum. Þá réðum við ekkert við þá og leikurinn rann úr höndum okkar, “ sagði Kjelling ennfremur.
„Okkur brást bogalistinn í of mörgum sóknum í síðari hálfleik og var fyrir vikið harðlega refsað með hraðaupphlaupum af hálfu íslenska liðsins,“ sagði Frank Löke. „Við vildum, en við gátum ekki.“