Íslenska landsliðið í handknattleik hreinlega kjöldró Norðmenn í síðari hálfleik í kvöld og vann sjö marka sigur, 29:22, eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 12:12. Þar með fer Ísland áfram í milliriðil með fjögur stig og mætir Þjóðverjum í fyrsta leik á laugardaginn.
Eftir það tekur við viðureign við Spánverja á mánudag og loks gegn Frökkum á þriðjudag.
Fyrri hálfleikur var jafn en strax í byrjun þess síðari gaf íslenska landsliðið heldur betur og náði þriggja marka forskot. Norðmenn náðu að minnka muninn í eitt mark, 20:19, en komust aldrei nær. Íslenska liðið bætti í hraðann eftir því á leið og Norðmenn náðu aldrei að fylgja því eftir.
Björgvin Páll Gústavsson fór hamförum í markinu, varði 18 skot, og hreinlega lokaði markinu á köflum. Norðmenn stóðu ráðþrota gegn honum og íslensku vörninni sem lék einkar vel með Sverre Jakobsson og Ingimund Ingimundarson sem aðalmenn að vanda.
Sóknarleikur Íslands, einkum í síðari hálfleik, var betri en stundum áður þar sem allir tóku sína ábyrgð.
Á heildina lítið lék íslenska landsliðið frábæran leik og batnaði bara eftir því sem á leikinn leið. Menn voru tilbúnir í slaginn, einbeittir og ákveðnir í að sigra og það skein af hverjum leikmanni.
Mörk Íslands: Snorri Steinn Guðjónsson 7/3, Alexander Petersson 5, Aron Pálmarsson 3, Guðjón Valur Sigurðsson 3, Þórir Ólafsson 3, Róbert Gunnarsson 2, Arnór Atlason 1, Ingimundur Ingimundarson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 18 skot.