Vín, konur og koníak

Jonas Larholm.
Jonas Larholm. Reuters

Áhugi Svía á HM og sænska handboltalandsliðinu tók mikinn kipp á ný þegar Svíar lögðu öflugt lið Pólverja í síðasta leik sínum í riðlakeppninni í gærkvöldi. Áður höfðu Svíar tapað fyrir spútnikliði Argentínu en sigurinn í gærkvöldi gerir það að verkum að umræddar þrjár þjóðir standa jafnar að vígi í milliriðlinum og með stigi meira en frábært lið Króata.

Aftonbladet fer hamförum í umfjöllun sinni í dag eins og fyrri daginn. Þar var sænska liðið tekið af lífi eftir tapið gegn Argentínu. Fyrirsögnin á íþróttablaði Aftonbladet í dag er því nokkuð skemmtileg en þar stendur í stríðsfyrirsögn: Við erum á lífi.

Blaðið gerir sigrinum gegn Pólverjum skil á tveimur opnum. Jonasi Larholm er þar hampað mjög fyrir frammistöðu sína og er rætt við kappann undir fyrirsögninni: Uppskriftin: Vín, konur og koníak. Þar segist Larholm hafa nýtt sumarfríið vel til að hlaða rafhlöðurnar. Hann hafi farið til Barcelona í tvær vikur, notið lífsins lystisemda og opnað sálina eins og hann orðar það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert