Svíar eru nánast öruggir með sæti í undanúrslitum heimsmeistarakeppninnar í handknattleik eftir sigur á Króötum, 29:25, í Malmö í kvöld. Um leið er hið sterka lið Króata úr leik því það á ekki lengur möguleika á að fara í undanúrslit.
Úr þessu verður það hlutskipti Króatanna að leika um fimmta, sjöunda, eða jafnvel níunda sætið á mótinu en þeir eru aðeins með 3 stig eftir fjóra leiki í milliriðlinum.
Svíar og Danir eru með 6 stig, Króatar 3, Pólverjar og Argentínumenn 2 og Serbar eitt stig. Nú eru að hefjast tveir síðari leikirnir en þar leikur Danmörk við Argentínu og Pólland við Serbíu. Argentína á enn von um að fara í undanúrslitin en þarf til þess að vinna bæði Dani og Serba. Pólverjar eru hinsvegar úr leik þar sem þeir hafa tapað fyrir bæði Dönum og Svíum.
Það bendir því allt til þess að eftir leiki kvöldsins verði bæði Danir og Svíar með gulltryggð sæti í undanúrslitunum. Aðeins sigur Argentínu á Danmörku getur ógnað því.