Heims- Evrópu og ólympíumeistarar Frakka voru að tryggja sér sæti í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í handknattleik eftir sigur á Norðmönnum, 31:26. Þar með er ljóst að Íslendingar komast ekki í undanúrslitin en þar leika Frakkar, Spánverjar, Danir og Svíar.
Frakkar voru 17:14 yfir í leikhléi og þeir komust með níu mörkum yfir í seinni hálfleik, 26:17. Norðmenn neituðu að gefast upp. Þeir náðu að hleypa smá spennu í leikinn með því að skora sex mörk í röð og minnka muninn í þrjú mörk en meistararnir héldu haus og innbyrtu fimm marka sigur.
Hinn 21 árs gamli Espen Lie Hansen var markahæstur í liði Norðmanna með 8 mörk en markvörðurinn Steinar Egoe átti frábæra innkomu í seinni hálfleik og varði þrjú vítaköst. Hjá Frökkum voru þeir William Accambray og Betrand Gille markahæstir með 5 mörk hvor.
Frakkar og Spánverjar eru með 7 stig, Íslendingar hafa 4 stig og eru í þriðja sæti, Ungverjar hafa 4, Þjóðverjar 2 og Norðmenn reka lestina með ekkert stig.