Óttast að Frakkar tapi viljandi fyrir Íslandi

Jérome Fernandez, franska skyttan, fagnar marki gegn Þýskalandi.
Jérome Fernandez, franska skyttan, fagnar marki gegn Þýskalandi. Reuters

Landsliðsmenn Svía og Dana eru óhressir með að leikur Íslands og Frakklands annað kvöld hefjist síðar en viðureign Dana og Svía. Með því geti Frakkar valið sér mótherja í undanúrslitum og tapað  viljandi fyrir Íslandi ef svo ber undir.

Flautað verður  til leiks hjá Dönum og Svíum í Malmö klukkan 19.15 en báðar þjóðir eru komnar áfram úr milliriðli tvö. Hálftíma síðar, klukkan 19.45, hefst viðureign Frakka og Íslendinga í Jönköping, en afar líklegt er að þá verði Frakkar þegar komnir í undanúrslit.

„Þetta er heimskulegt og stórfurðulegt. Ég skil ekki hvers vegna menn gera þetta. Þessir leikir eiga að fara fram á sama tíma," segir Magnus Jernemyr, landsliðsmaður Svía, við Aftonbladet í dag.

Hans Lindberg, Íslendingurinn í danska liðinu, tekur í sama streng. „Þetta er illa skipulagt," segir Lindberg, og félagi hans, Mads Christiansen, er á sömu nótum: "Við getum unnið alla en viljum fyrir alla muni sleppa við Frakkana. Ég vissi ekki að þetta væri sett svona upp. Þá skiptir engu máli hvernig fer hjá okkur á móti Svíum," segir Christiansen.

Arne Elovsson, framkvæmdastjóri HM, segir við Aftonbladet að hann skilji vel gagnrýnina. „Vissulega, en það er IHF sem festir leiktímana samkvæmt óskum sjónvarpsstöðvanna. Við sem framkvæmdaraðilar mótsins höfum minnst um þetta að segja. Vissulega gætu Frakkar valið að tapa gegn Íslandi en ég trúi því ekki að neitt lið tapi leik viljandi," segir Arne Elovsson við Aftonbladet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert