Spánverjar vilja hefna fyrir Peking

Spánverjar fagna sigri á Norðmönnum á laugardaginn.
Spánverjar fagna sigri á Norðmönnum á laugardaginn. Reuters

Spánverjum er í fersku minni tapið fyrir Íslendingum í undanúrslitum handknattleikskeppninnar á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Ísland vann þá, 36:30, og gerði draum Spánverja um Ólympíugull að engu.

Iker Romero, hinn öflugi leikmaður Spánverja, vill koma fram hefndum þegar liðin mætast í milliriðli HM í Jönköping klukkan 15 í dag. „Þar misstum við af tækifæri lífs okkar," sagði Romero við fréttamann Marca í Jönköping.

Marca fjallar um íslenska liðið í dag og segir að tap Spánverja gegn Íslendingum í Peking hafi alls ekki verið slys. Handbolti sé þjóðaríþrótt Íslendinga og þeir upplifi nú besta tímabil sitt í sögunni í þessari íþróttagrein, enda hafi liðið unnið tvenn fyrstu verðlaun sín á stórmótum á síðustu þremur árum.

Marca segir að Ísland eigi stóran hóp góðra leikmanna sem spili í Þýskalandi, og telur þar upp Ólaf Stefánsson, Guðjón Val Sigurðsson, Róbert Gunnarsson og Alexander Petersson, að ógleymdum einum efnilegasta handboltamanni heims, Aroni Pálmarssyni. Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er líka frábær, segir í grein Marca.

„Íslendingar hafa allt, frábæra leikmenn í sókn, vörn og marki," segir þjálfari spænska landsliðsins, Valero Rivera, við Marca.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert