Frakkinn Nikola Karabatic, sem af mörgum er talinn besti handboltamaður heims, segir að Frakkar hugsi ekki þannig að þeir ætli að velja sér mótherja í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu.
Frakkar mæta Íslendingum í lokaleik dagsins í milliriðli HM í Jönköping. Leikurinn hefst klukkan 19.45 að íslenskum tíma en hálftíma áður verður flautað til leiks í viðureign Dana og Svía en Frakkar mæta annarri hvorri þjóðinni í undanúrslitum.
Landsliðsmenn Svía og Dana eru óhressir með að leikur Íslands og
Frakklands hefjist síðar en viðureign Dana og Svía. Með því
geti Frakkar valið sér mótherja í undanúrslitum og tapað viljandi fyrir
Íslandi ef svo ber undir.
,,Við mætum í leikinn við Ísland með því hugarfari að vinna. Við munum ekki velja okkur mótherja. Ég trúi að slíkt boði ógæfu. Danmörk og Svíþjóð hafa á sterkum liðum að skipa svo það skiptir í raun ekki máli fyrir okkur hvor þjóðinni við mætum,“ sagði Karabatic við norsku sjónvarpsstöðina TV2 eftir sigur Frakka gegn Norðmönnum í gær en með honum tryggði Frakkar sér farseðilinn í undanúrslitin.