Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði ekki bara tækifærinu á að spila um medalíu með því að tapa öllum leikjunum í milliriðlinum á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Svíþjóð. Það varð einnig af tækifæri til að skrapa nokkrum milljónum í kassann hjá Handknattleikssambandi Íslands. Ef liðið hefði komist í undanúrslit hefði HSÍ verið tryggðar að minnsta kosti rúmlega 3 milljónir króna.
Liðið sem stendur uppi sem sigurvegari á mótinu fær 200 þúsund svissneska franka en það jafngildir um 24,5 milljónum íslenskra króna. Það er heldur ekki alveg ónýtt að lenda í 2. sæti þó það sé alltaf leiðinlegt að tapa úrslitaleik. Verðlaunaféð er rúmar 18 milljónir.
Þriðja sætið fær rúmar 9 milljónir og fjórða sætið 3 milljónir en verðlaunafé á mótinu hefur hækkað töluvert frá því fyrir tveimur árum í Króatíu. Danir, Svíar, Spánverjar og Frakkar berjast að þessu sinni um milljónirnar sem í boði eru.
Þar sem íslensku landsliðsmennirnir hugsa lítið um peningahlið mótsins svekkja þeir sig lítið á þessu en óneitanlega hefðu upphæðirnar sem nefndar voru hér að ofan hjálpað til við rekstur HSÍ, það er ekki spurning.