Króatar sigruðu Íslendinga, 34:33, í úrslitaleiknum um 5. sætið í heimsmeistarakeppni karla í handknattleik sem fram fór í Malmö í Svíþjóð í kvöld.
Íslenska liðið var yfir í hálfleik, 16:14, eftir frábæran endasprett þar sem það sneri stöðunni úr 8:13 á átta mínútna kafla. Leikurinn var síðan í járnum lengi vel en Króatar komust síðan í 33:27 seint í leiknum. Ísland skoraði sex mörk gegn einu á lokakaflanum og fékk boltann 7 sekúndum fyrir leikslok. Ekki náðist nógu gott skot í lokin og Króatar fögnuðu sigri.
Fimmta sætið gefur sæti í mun hagstæðari riðli í forkeppni Ólympíuleikanna 2012 en sjötta sætið.
Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 10, Snorri Steinn Guðjónsson 7, Alexander Petersson 6, Ólafur Stefánsson 5, Arnór Atlason 2, Róbert Gunnarsson 1, Vignir Svavarsson 1, Ásgeir Örn Hallgrímsson 1.
Mörk Króatíu: Denis Buntic 9, Vedran Zrnic 7, Drago Vukovic 7, Domagoj Duvnjak 6, Igor Vori 2, Vedran Mataija 1, Marko Kopljar 1, Manuel Strlek 1.