Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, sagði það líta ágætlega út á pappírunum að hafna í 6. sæti á HM í handknattleik en hann hefði að sjálfsögðu viljað vinna fleiri leiki í keppninni.
„6. sæti hljómar ágætlega en fimm sigrar og fjögur töp í röð er náttúrlega ekki það sem við viljum. Við getum talið okkur heppna að hafa náð 6. sætinu miðað við að hafa tapað fjórum leikjum. Aftur á móti er ég auðvitað sáttur við að komast inn í forkeppni Ólympíuleikanna.
Það er það sem ég er sáttur við og við höldum áfram að vinna að okkar markmiðum. Ég vona bara að fólk fyrirgefi okkur það að hafa dottið aðeins niður í einu móti og við reynum að koma aftur,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum við Króatíu og sagði úrslitin í leiknum hafa verið nokkuð sanngjörn.
Sjá allt um HM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.