Frakkar heimsmeistarar

Nikola Karabatic var allt í öllu í sóknarleik Frakka í …
Nikola Karabatic var allt í öllu í sóknarleik Frakka í dag. Hann skoraði 10 mörk og stóð einnig fastur fyrir í vörninni. MARCELO DEL POZO

Frakkar eru heimsmeistarar í handknattleik eftir tveggja marka sigur á Dönum 37:35, eftir framlengingu. Frakkar voru sterkari á lokamínútunum og greinilegt að reynslan vó þungt á síðustu mínútum leiksins.

Besti maður Frakka í leiknum var Nikola Karabatic sem skoraði 10 mörk og þá hinn reynslumikli Javier Fernandez einnig drjúgur í framlengingunni. Hann skoraði 2 af þremur síðustu mörkum þeirra í leiknum.

Danir voru grátlega nálægt því að vinna heimsmeistaratitilinn að þessu sinni en Frakkarnir hreinlega hálfu númeri of stórir, þó ekki meira en það. Þetta var eini leikurinn sem Danir töpuðu á mótinu. Mikkel Hansen 22 ára stórskyttan í liði Dana var besti maður liðsins með 10 mörk, en hann var tekinn úr umferð í framlengingunni. Markvörður Dana Niklas Landin fór einnig á kostum og gerði allt sem hann gat, varði 22 skot þar af 2 víti. Bo Spelleberg sem tryggði Dönum framlengingu gerði afdrifarík mistök þegar staðan var 35:34 fyrir Frakka og Danir að fara í sókn, þegar 2 mínútur af framlengingunni voru eftir. Þá kastaði hann boltanum beint útaf og Frakkar gengu á lagið.

Frakkar eru fyrsta liðið til að verja heimsmeistaratitilinn síðan Rúmenar gerðu það árið 1974. Frakkar unnu í Króatíu árið 2009. Þeir eru nú búnir að vinna 4 stórmót í röð og virka hreinlega óstöðvandi um þessar mundir.  omt@mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka