Guðjón Valur Sigurðsson er á meðal markahæstu leikmanna á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem stendur yfir á Spáni þessa dagana.
Guðjón Valur hefur skorað samtals 13 mörk í fyrstu tveimur leikjum Íslendinga á mótinu eða jafnmörg og Túnisbúinn Amine Bannour og Daninn Anders Eggert. Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov er hins vegar markahæstur með 17 mörk en hann varð markakóngur á Evrópumótinu í Serbíu á síðasta ári.
Aron Pálmarsson er í efsta sæti yfir þá leikmenn sem hafa átt flestar stoðsendingar á mótinu en samkvæmt tölfræði heimasíðu HM hefur Aron átt 11 stoðsendingar, tveimur meira en Kiril Lazarov.
Liðin í A- og B-riðlum hafa leikið tvo leiki en ekkert er spilað í þeim riðlum í dag. Liðin í C- og D-riðli ljúka hins vegar annarri umferðinni í dag.