Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann Makedóníu, 23:19, í þriðju umferð B-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik í San Pablo-íþróttahöllinni. Frábær varnarleikur og framúrskarandi leikur Björgvins Páls Gústavssonar í markinu lagði grunn að þessum góða sigri.
Staðan í hálfleik var jöfn, 10:10, eftir að hafa haft frumkvæðið í fyrri hálfleik og m.a. skoraði fjögur fyrstu mörk leiksins. Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. Þá byrjaði íslenska liðið á að skora fjögur mörk á fyrstu níu mínútunum áður en Makedóníumenn náðu að svara fyrir sig. Eftir það var íslenska liðið með yfirhöndina allt til enda.
Eins fyrr segir var varnarleikurinn frábær með Sverre Jakobsson og Vigni Svavarsson fremsta meðal jafninga. Þeir héldu sóknarmönnum Makedóníumanna niðri, þar á meðal Kiril Lazarov, sem skoraði vart mark nema úr vítaköstum.
Þar með hefur Ísland 4 stig eftir þrjá leiki eins og Makedóníumenn og Rússar. Danir eru einnig með fjögur stig en eiga leik inn, sem fram fer á eftir, gegn Síle.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í dag hjá íslenska liðinu með níu mörk, Þórir Ólafsson og Aron Pálmarsson skoruðu fimm mörk hvor, Vignir Svavarsson þrjú og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt.
Næsti leikur Íslands verður annað kvöld. Þá verður leikið við Dani. Flautað verður til leiks kl. 19.15.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Lið Íslands: Björgvin Páll Gústavsson, Aron Rafn Eðvarðsson - Guðjón Valur Sigurðsson, Aron Pálmarsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Þórir Ólafsson, Róbert Gunnarsson, Sverre Jakobsson, Vignir Svavarsson, Ernir Hrafn Arnarson, Kári Kristján Kristjánsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Ólafur Gústafsson, Arnór Þór Gunnarsson, Fannar Þór Friðgeirsson.
Lið Makedóníu: Nikola Mitrevski, Borko Ristovski - Dejan Manaskov, Stojanche Stoilov, Kiril Lazarov, Ace Jonovski, Branislav Angelovski, Filip Mirkulovski, Velko Markoski, Zlatko Mojsoski, Nikola Markoski, Naumce Mojsovski, Vancho Dimovski, Goce Georgievski, Filip Lazarov, Milan Levov.