Ísland steinlá fyrir Danmörku með átta marka mun, 36:28, á heimsmeistaramótinu í handbolta en staðan í hálfleik var 16:13 fyrir Dönum. Danir eru búnir að vinna B-riðilinn en Ísland er í fjórða sæti riðilsins.
Aron Pálmarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Ísland en það var í eina skiptið sem Íslandi átti eftir að vera yfir í leiknum. Danir komust í 2:1 og létu forskotið ekki af hendi. Guðjón Valur Sigurðsson fékk tækifæri til að jafna í 13:13 undir lok fyrri hálfleik en lét verja frá sér úr hraðaupphlaupi. Danir svöruðu með því að skora þrjú mörk í röð og voru yfir í hálfleik, 16:13.
Varnarleikur Íslands var ekkert sérstakur í fyrri hálfleik en hann var enn verri í þeim síðari. Það hjálpaði ekki markvörðunum sem vörðu lítið sem ekkert í seinni hálfleiknum og því skoruðu Danirnir af vild. Það skipti ekki máli hvort þeir lyftu sér upp langt fyrir utan, keyrðu hraða miðju eða fóru inn úr hornunum, allt lá í netinu.
Danska landsliðið er frábært og líklegt til að fara alla leið á HM en íslenska liðið án Alexanders Peterssonar, Arnórs Atlasonar og Ingimundar Ingimundarsonar átti ekki roð í það danska í dag.
Kári Kristján Kristjánsson spilaði mjög vel á línunni og skoraði sjö mörk auk þess að fiska nokkur víti. Snorri Steinn Guðjónsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson, sem hafa ekki verið upp á sitt besta á mótinu til þessa, rönkuðu við sér í leiknum í kvöld. Snorri skoraði sex mörk og Ásgeir Örn þrjú. Aron Pálmarsson skoraði aðeins tvö mörk en átti ótal stoðsendingar að vanda en honum gekk afar vel að finna Kára Kristján á línunni.
Danir eru með fullt hús stiga eftir sigurinn í kvöld eða átta talsins. Rússar eru í öðru sæti með fimm stig eins og Makedónía sem er í þriðja sæti og Ísland er í fjórða sætinu með fjögur stig. Til þess að ná þriðja sætinu og sleppa við Frakka í 16 liða úrslitum þarf Ísland að vinna Katar á föstudaginn og vonast til þess að Danir vinni Makedóníu.
Fjallað verður ítarlega um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl frá Sevilla koma inn á mbl.is seinna í kvöld.
Mörk Íslands: Kári Kristján Kristjánsson 7, Snorri Steinn Guðjónsson 6, Guðjón Valur Sigurðsson 5/1, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Aron Pálmarsson 2, Ólafur Gústafsson 2, Ernir Hrafn Arnarson 1, Þórir Ólafsson 1/1, Arnór Þór Gunnarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 8, Aron Rafn Eðvarðsson 4.