„Þetta var jafnlélegur leikur hjá okkur eins og Makedóníuleikurinn var góður. Danirnir voru einfaldlega sterkari en við á flestum sviðum og við verðum að herða okkur upp eftir þetta tap,“ sagði Björgvin Gústavsson markvörður íslenska landsliðsins við mbl.is eftir átta marka tapið á móti Dönum í kvöld.
,,Það kemur alltaf svona einn dapur leikur í hverju móti og nú höfum við vonandi tekið hann út. Það er rosalega erfitt að lenda 5-6 mörkum undir á móti liði eins og Danir eru með en þrátt fyrir það áttum við að uppskera miklu betur,“ sagði Björgvin en hann og kollegi hans, Aron Rafn Eðvarðsson, voru ekki í öfundsverði hlutverki þar sem íslenska vörnin náði sér engan veginn á strik.