Ætli strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu að forðast fjórða sætið í B-riðlinum á HM á Spáni og þar með væntanlega viðureign gegn heims- og ólympíumeisturum Frakka í 16-liða úrslitum þarf tvennt að gerast.
Fyrst og fremst þarf Ísland að vinna Katar í lokaumferð riðilsins á morgun. Það er vissulega skylduverkefni fyrir íslenska liðið en Katar sýndi í gær að það er þó með betra lið en Síle með sigri í leik liðanna, 31:23.
Íslensku strákarnir eru þó ekki með örlögin í eigin höndum fyrst Makedóníumenn náðu í mikilvægt stig með ótrúlegu jafntefli, 29:29, gegn Rússlandi í gær. Makedónía er með fimm stig, stigi meira en Ísland, og mætir Danmörku á morgun.
Vinni Ísland sigur á Katar verða Danir í það minnsta að ná jafntefli gegn Makedóníu til að Ísland endi í þriðja sæti riðilsins. Liðin yrðu þá bæði með sex stig en Ísland fengi þriðja sætið á sigri í innbyrðis viðureign. Vinni Makedónía aftur á móti Danmörku endar Ísland í fjórða sæti með sigri á Katar og mætir þá Frakklandi nær örugglega í 16-liða úrslitum. Þetta miðast allt við sigur Rússa gegn Síle sem ætti að vera nokkuð borðleggjandi.
Fari allt á versta veg og Ísland tapi óvænt fyrir Katar á föstudaginn enda strákarnir í fimmta sæti og fara þá ekki í útsláttarkeppnina heldur forsetabikarinn.
Þar sem liðin í A-riðli skiptast á að vinna hvort annað er ekki enn hægt að spá hverjum Íslendingar myndu mæta í 16-liða úrslitum. Mótherjinn verður Þýskaland, Túnis, Brasilía eða Argentína. Í 8-liða úrslitum yrði mótherjinn nær örugglega sigurvegari D-riðils sem verður Króatía eða Spánn.