Guðjón setti nýtt markamet á HM

Guðjón Valur Sigurðsson í leiknum við Dani á HM.
Guðjón Valur Sigurðsson í leiknum við Dani á HM. mbl.is/Hilmar Þór

Guðjón Valur Sigurðsson hefur nú skorað fleiri mörk fyrir íslenska landsliðið á heimsmeistaramóti en nokkur annar, alls 232. Hann bætti í gær fyrra met sem Ólafur Stefánsson átti en það voru 227 mörk en þeir eru langmarkahæstu leikmenn íslenska landsliðsins á heimsmeistaramóti frá upphafi.

Patrekur Jóhannesson er í þriðja sæti með 121 mark og Alexander Petersson er fjórði með 119 mörk. Aðrir leikmenn hafa ekki náð að rjúfa 100 marka múrinn. Snorri Steinn Guðjónsson er næstur því marki. Hann hefur skorað 98 mörk fyrir landsliðið á heimsmeistaramóti í 25 leikjum.

Guðjón Valur hefur skorað mörkin 232 í 44 HM leikjum, sem er 5,27 mörk að jafnaði í leik. Ólafur skoraði mörkin sín 227 í 54 HM leikjum, 4,2 mörk að meðaltali.

Guðjón Valur jafnaði met Ólafsþegar hann skoraði úr vítakasti á 32. mínútu leiksins við Katar í gær og metið bætti hann níu mínútum síðar. Þá náði Guðjón Valur boltanum eftir frákast þegar markvörður Katar hafði varið vítakast Guðjón Vals.

Sem fyrr segir lék Guðjón Valur sinn 44. landsleik á heimsmeistaramóti í gær. Hann er þar með í öðru til þriðja sæti yfir leikjahæstu landsliðsmenn Íslands á heimsmeistaramóti ásamt Guðmundi Hrafnkelssyni, markverði. Ólafur Stefánsson er leikjahæstur með 54 HM-leiki.

Guðjón Valur hefur skorað mark í 41 leik í röð á HM. Þar hefur hann skorað 10 mörk eða fleiri í fimm skipti, oftar en nokkur annar íslenskur handknattleiksmaður.

iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert