„Við töpuðum ekki leiknum viljandi en við reyndum heldur ekki að sigra. Það hentaði okkur einfaldlega betur að mæta Þjóðverjum en Frökkum í 16-liða úrslitum. Þar af leiðandi létum
við ekki á það reyna hvort við gætum lagt Dani.“
Þetta sagði Borko Ristovski, markvörður landsliðs Makedóníu, við danska handboltavefinn hbold.dk í gærkvöldi eftir að Makedónía tapaði með þriggja marka mun, 33:30, fyrir Dönum í lokaleik B-riðils heimsmeistaramótsins.
Makedóníumönnum varð þar með að ósk sinni. Þeir enduðu í fjórða sæti riðilsins og leika við Þjóðverja á morgun í 16-liða úrslitum. Danir sem urðu efstir mæta Túnis.
Það var ekki mikið undir hjá Dönum í leiknum við Makedóníu. Alveg var sama hvernig leikurinn endaði, þeir voru alltaf öruggir um efsta sætið í riðlinum. Fyrir vikið einkenndist leikur Dana af því að lítið af undir.
Makedóníumenn voru yfir framan af en Danir voru klárlega sterkari síðustu 10 til 15 mínútur leiksins.
Höfðu engan áhuga
„Það var ekki auðvelt að leika þennan leik vegna þess að andstæðingurinn hafði engan áhuga á að vinna,“ sagði Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana.
„Þetta var undarlegur leikur þar sem við vissum fyrirfram að Makedóníumenn vildu ekki vinna. Fyrir vikið var leikurinn ekkert sérstaklega skemmtilegur,“ sagði Kasper Søndergaard, leikmaður danska landsliðsins.
Danir lentu í kröppum dansi gegn Túnis á fjögurra þjóða æfingamóti í Danmörku í byrjun þessa mánaðar en höfðu nauman sigur að lokum, 30:29.
„Fyrir mótið og eins og Túnismenn léku í fyrstu tveimur leikjum sínum þá taldi ég að þeir gætu orðið erfiðir mótherjar. En eftir að hafa séð tvo síðustu leiki Túnis á HM þá reikna ég ekki með að þeir verði danska landsliðinu fyrirstaða,“ sagði Jesper Jensen, fyrrverandi landsliðsmaður Dana, við TV2 í heimalandi sínu í gærkvöldi.
Aðallínumaður danska landsliðsins, Jesper Nøddesbo, meiddist í leiknum í gær. Óvíst er hvort hann getur tekið þátt í leiknum við Túnis í Zaragoza annað kvöld.
Vandalítið hjá Rússum
Rússar voru ekki í neinum vandræðum með að vinna Síle í fyrsta leik dagsins í riðlinum en lokatölur urðu 36:24. Staðan var 18:13 í hálfleik og mest munaði þrettán mörkum á liðunum rétt fyrir leikslok. Hornamaðurinn öflugi Timur Dibirov skoraði 11 mörk fyrir Rússana en Feuchtmannbræðurnir þrír gerðu 15 af mörkum Sílebúa.
Rússar gulltryggðu sér þar með annað sætið í riðlinum en Sílebúar fengu ekki stig og fara í keppni um sæti 21 til 24, rétt eins og þegar þeir þreyttu frumraun sína á HM fyrir tveimur árum.