Ísland og Frakkland mættust í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppni karla í handknattleik í Palau Sant Jordi höllinni í Barcelona klukkan 19.15. Frakkar höfðu betur 30:28 eftir hörkuleik þar sem Íslendingar létu heims- og ólympíumeistarana hafa verulega fyrir hlutunum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Frumkvæðið var iðulega Frakka en Íslendingum tókst að hanga í þeim og munurinn fór mest upp í fjögur mörk. Frakkland var marki yfir að loknum fyrri hálfleik. Íslensku landsliðsmennirnir sýndu mikinn baráttuanda því þeir unnu nokkrum sinnum upp þriggja marka forskot Frakkanna en tókst aldrei að komast yfir í síðari hálfleik.
Þórir Ólafsson var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk þar af fimm af vítalínunni. Aron Pálmarsson kom næstur með sex mörk þrátt fyrir að hafa verið tekinn úr umferð lengi vel í leiknum. Hinir lítt reyndu Arnór Gunnarsson og Ólafur Gústafsson fengu töluvert að spreyta sig í leiknum og skiluðu samtals fimm mörkum.
Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður Morgunblaðsins/mbl.is á HM á Spáni, fjallar ítarlega um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.
Lið Íslands: Björgvin Páll Gústavsson, Aron Rafn Eðvarðsson - Guðjón Valur Sigurðsson, Aron Pálmarsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Þórir Ólafsson, Róbert Gunnarsson, Sverre Jakobsson, Vignir Svavarsson, Ernir Hrafn Arnarson, Kári Kristján Kristjánsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Ólafur Gústafsson, Arnór Þór Gunnarsson, Fannar Þór Friðgeirsson.
Lið Frakklands: Thierry Omeyer, Daouda Karaboue - Jeróme Fernandez, Didier Dinart, Xavier Barachet, Daniel Narcisse, Samuel Honrubia, Nikola Karabatic, Timothey Nguessan, William Accambray, Luc Abalo, Cédric Sorhaindo, Michaël Guigou, Sébastien Bosquet, Grégoire Detrez, Valentin Porte.