Ísland hefði farið í undanúrslit

Danski handknattleiksmaðurinn Daniel Svensson hefur mikla trú á íslenska landsliðinu …
Danski handknattleiksmaðurinn Daniel Svensson hefur mikla trú á íslenska landsliðinu í handknattleik undir stjórn Arons Kristjánssonar. Morgunblaðið/Ómar

Íslenska landsliðið var besta liðið sem féll úr keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik í sextán liða úrslitum og hefði með réttu átt að fara alla leið í undanúrslit, að mati danska handknattleiksmannsins Daniels Svenssons, en hann skrifar hugleiðingar sínar um heimsmeistaramótið á bloggsíðu sína.

Svensson segir að íslenska landsliðið leiki ævinlega hraðan og hugmyndaríkan handknattleik. Fyrir vikið sé alltaf þess virði að fylgjast með leikjum þess á stórmótum. Svensson segir það mat sitt að Íslendingar séu með sterkara og betra lið en t.d. Rússar, þótt Íslendingar hafi tapað fyrir þeim í riðlakeppninni. Ljóst sé að hefðu Íslendingar unnið Rússa í riðlakeppninni hefðu þeir unnið Brasilíu í 16-liða úrslitum og haft betur gegn Slóvenum í 8-liða úrslitum. „Þar með hefðu Íslendingar komst í undanúrslit. Þess í stað virðast Rússar ætla að komast þangað,“ segir Svensson sem leikur með þýska 1. deildar liðinu Lübbecke.

Þetta er mat Svenssons.  Einnig telur hann íslenska landsliðið betra en það serbneska sem féll úr keppni eftir tap fyrir Spánverjum í gærkvöldi.

„Tapið fyrir Rússum í fyrstu umferð riðlakeppninnar reyndist íslenska liðinu dýrt. Þann leik átti Ísland að vinna. Íslendingar fóru illa að ráði sínu í nokkrum upplögðum marktækifærum auk þess sem markvarslan var ekki eins og best verður á kosið. Ísland vantaði aðeins herslumuninn upp á að ná enn lengra á HM,“ segir Daniel Svensson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert