„Þetta var mjög kaflaskipt hjá okkur og sérstaklega áttum við slæman kafla í síðari hálfleik þar sem Svíar skoruðu níu mörk gegn aðeins einu marki okkar,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við mbl.is í kvöld eftir sex marka tap íslenska landsliðsins fyrir sænska landsliðinu í Kristinastad í Svíþjóð.
„Á slæma kaflanum í síðari hálfleik gerðu menn sig seka um alltof mikið af tæknilegum mistökum og að nýta skot sín ílla. En okkur tókst að laga þessi atriði aðeins og ljúka leiknum með þokkalegum sóma,“ sagði Aron sem stillti ekki upp sinni sterkustu sveit í leiknum. Alexander Petersson, Aron Pálmarsson, Arnór Atlason og Guðjón Valur Sigurðsson voru ekki á leikskýrslu og Snorri Steinn Guðjónsson sat á meðal varamanna allan leikinn. Hann er stífur í hálsliðum og engin áhætta tekin með að tefla honum fram. „Gunnar Steinn Jónsson lék ágætlega. Þar af leiðandi sá ég ástæðu til að tefla á tvær hættur með Snorra Stein.“
„Við urðum að gefa reynslumeiri leikmönnum hvíld og leyfa þeim sem minna hafa leikið að spreyta sig. Það var ekki hjá því komist. Auk þess þá er nauðsynlegt að gefa óreyndari leikmönnum tækifæri til þess að öðlast reynslu og sýna hvað í þeim býr,“ sagði landsliðsþjálfarinn þar sem hann sat í rútu á leið frá Kristianstad til Malmö þar sem íslenska landsliðið gistir í nótt. Það fer síðan áfram til Álaborgar í fyrramálið með flugi en íslenska landsliðið mætir Dönum í Álaborg síðdegis á morgun. Danir unnu Slóvena með 10 marka mun í Óðinsvéum í kvöld, 36:26.
„Leikurinn við Svía á HM á næsta föstudag verður allt öðruvísi en viðureignin í kvöld. Því get ég lofað,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, en Íslendingar og Svíar mætast í upphafsleik liðanna á HM í Doha í Katar síðdegis á næsta föstudag.