Tap gegn Svíum í fyrsta leik

Ísland tapaði með átta marka mun fyrir Svíum í fyrstu umferð riðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Ali Bin Hamad Al Attiya Arena í Doha, höfuðborg Katar, í kvöld. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Íslendingar áttu litla möguleika að þessu sinni því sænska liðið lék mun betur. Svíar voru með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik 12:7. Íslendingum tókst aldrei að hleypa spennu í leikinn í síðari hálfleik og munurinn jókst á lokakaflanum. Lokatölurnar urðu 24:16.

Svíar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum varnarleik og okkar menn áttu í erfiðleikum í sókninni eins og markatalan ber með sér. Leikmenn Evrópumeistaraliðs Flensburgar, Tobias Karlsson og Mattias Andersson, áttu báðir mjög góðan leik. Karlsson í miðri vörninni og Andersson í markinu sem varði til að mynda tvö vítaköst. 

Varnarleikur íslenska liðsins var heldur ekki nógu sterkur til þess að halda sænska liðinu í skefjum en hann var þó betri en sóknarleikurinn. Björgvin Páll Gústavsson stóð hins vegar fyrir sínu í markinu og var besti maður Íslands ásamt Arnóri Atlasyni sem var klókur í sókninni og skoraði fimm mörk. Lykilmenn í íslenska liðinu náðu sér ekki nógu vel á strik. Guðjón Valur brenndi af tveimur vítaköstum og Aron og Alexander töpuðu boltanum oft í sókninni. Sóknarleikurinn var of hægur til þess að opna sænsku vörnina og þegar hann varð vandræðalegur urðu sendingar á milli manna ónákvæmar. 

Ýmislegt í tölfræðiþáttum leiksins var svolítið furðulegt ef mið er tekið af úrslitum leiksins. Svíar fengu til að mynda fleiri brottvísanir, alls sjö talsins. Einnig töpuðu þeir boltanum oftar en tíu sinnum og er það merkilegt í ljósi þess að þeir unnu með átta marka mun. Eins má nefna að Kim Andersson skoraði ekki mark í leiknum. 

Næsti leikur Íslands er gegn Alsír klukkan 16:00 á sunnudaginn

Ísland 16:24 Svíþjóð opna loka
60. mín. Andreas Nilsson (Svíþjóð) skoraði mark Af línunni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert