Svíar unnu enn stærri sigur á Tékkum en gegn Íslandi á föstudagskvöld, í C-riðli HM í handbolta í Katar í dag. Frakkar unnu fjögurra marka sigur á Egyptalandi.
Líkt og gegn Íslandi léku Svíar firnasterka vörn gegn Tékkum í dag en sölluðu jafnframt inn mörkum og var staðan í hálfleik 19:10. Tékkar gáfust fljótlega upp í seinni hálfleiknum og niðurstaðan varð 14 marka sigur Svía, 36:22. Kim Andersson var þeirra bestur og skoraði 10 mörk auk þess sem Matthias Andersson var aftur mjög góður í markinu.
Egyptaland, sem vann risasigur á Alsír í fyrsta leik, veitti Frökkum ágæta keppni í dag. Egyptar komust í 10:9 en Frakkar bættu stöðuna fyrir hálfleik og voru yfir þegar að honum kom, 14:11. Ólympíu- og Evrópumeistararnir héldu svo 3-4 marka forskoti stærstan hluta seinni hálfleiks og fögnuðu sigri, 28:24. Nikola Karabatic var markahæstur með 6 mörk.
Staðan í riðlinum er því þannig að Svíþjóð og Frakkland eru með 4 stig, Egyptaland og Ísland með 2 stig, en Tékkland og Alsír án stiga.
Ísland mætir Frakklandi á þriðjudaginn kl. 18.